Það var í nógu að snúast hjá austfirsku skíðafólki um síðustu helgi og verður áfram.
Fjöldi keppenda 12 ára og yngri frá Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar heimsóttu félaga sína í Mývetningi heim og kepptu þar á Kröflumóti. Á laugardaginn léku veðurguðirnir við hvurn sinn fingur og keppni í svig og stórsvigi gekk vel.
UMF Þristur stóð fyrir fjörugum þemadegi á Hallormsstað síðastliðinn laugardag. Um þrjátíu manns á öllum aldri tóku þátt í fjölbreyttri dagskrá sem öll miðaði að því að hreyfa sig og hafa gaman saman. Dagurinn hófst kl 11, en þá kenndi Auður Vala Gunnarsdóttir þátttakendum sitt hvað í zumba og taktvissar tær fengu þar að njóta sín til fulls.
Aðalfundur Neista var haldinn 26. febrúar í Löngubúð. Fundurinn var góður þó mæting foreldra á fundinn hefði mátt vera betri. Á fundinum kom fram að mikill kraftur er í starfi félagsins og nánast öll börn (6-16 ára) á staðnum taka þátt í starfi á vegum Neista.
Á aðalfundi Neista voru þau börn verðlaunuð sem höfðu staðið sig sérstaklega vel á síðastliðnu ári. Venja er fyrir því að veita verðlaun fyrir mestu framfarir í sundi og fótbolta, sund-Neistann, fótbolta-Neistann og Íþróttamaður ársins.
Að þessu sinni fengu eftirfarandi verðlaun: Sund-Neistinn: Ásmundur Ólafsson Mestu framfarir í sundi: Ísak Elísson Fótbolta-Neistinn: Kristófer Dan Stefánsson Mestu framfarir í fótbolta: Þór Albertsson Bikarinn fyrir íþróttamann ársins fengu krakkarnir í sunddeild Neista, sem þriðja árið í röð stóðu sig eins og hetjur og unnu öll mót sem þau fóru á.
Þróttur Neskaupstað náði fjórða sætinu í 1. deild kvenna í blaki, sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni, þegar liðið lagði Ými í síðasta heimaleik leiktíðarinnar á laugardag.
Þróttur sigraði allar hrinurnar þrjár en leikurinn var engu að síður spennandi og oft mjótt á munum.
Í kvöld tekur Höttur á móti Breiðablik í lokaumferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Okkar menn hafa þegar tryggt sé sæti í úrslitakeppni um sæti í úrvalsdeild á næsta ári, en með sigri í kvöld er möguleiki á að ná 2. sæti í keppninni og þar með heimaleikjarétti í gegnum úrslitakeppnina. Leikurinn hefst klukkan 18.30 í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum.
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum fyrir 11-14 ára fór fram í Laugardalshöll síðustu helgi. 363 keppendur frá 19 félögum viðsvegar að af landinu áttust þar við.
UÍA átti 12 keppendur á mótinu og stóðu þeir sig með prýði, jafnt innan vallar sem utan. Allir UÍA keppendur bættu árangur sinn, fimm verðlaun skiluðu sér austur og margoft átti UÍA fulltrúa í úrslitum en þangað rata átta hlutskörpustu.
Körfuknattleikslið Hattar beið ósigur fyrir Breiðablik 68-73 í íþróttahúsinu á Egilsstöðum, í þýðingarmiklum leik í lokaumferð 1. deildar karla, síðastliðinn föstudag. En sigur í leiknum hefi tryggt Hetti 2. sætið í keppninni.
Leikurinn fór hægt af stað og höfðu heimamenn undirtökin framan af, þegar leið á leikinn sótti Breiðablik í sig veðrið og höfðu sigur á loka sekúndunum eftir umdeilt brot heimamanna.
Um þessar mundir er mikið um að vera hjá skíðaköppum á öllum aldri og fjöldi móta í boði víðsvegar um land. Austfirskt skíðafólk er því á ferð og flugi þessa dagana.
Næstu helgi sækja skíðakappar, frá Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar, nágrana sína í Mývetningi heim og taka þátt í Kröflumótinu sem nú er haldið í fyrsta skipti. Mótið er ætlað 9-12 ára og verður þar ýmislegt skemmtilegt á dagskrá auk hefðbundinnar skíðakeppni.
ÍSÍ heldur í samstarfi við UÍA námskeið, fyrir fararstjóra hér eystra dagana 5.-6. mars.
Mánudaginn 5. mars verður námskeið á Fljótsdalshéraði, á skrifstofu UÍA, Tjarnarási 6 og þriðjudaginn 6. mars í Fjarðabyggð, í Austrahúsinu, Strandgögu 41 á Eskifirði. Bæði námskeiðin hefjast kl 17:30 og standa til 19:30, og eru þau aðildarfélögum UÍA að kostnaðarlausu.