Farandljósmyndasýningin ,,Ljúfar minningar frá liðnu sumri" farin á flakk
Í fyrra flökkuðu um gjörvallt Austurland þrír stafrænir myndarammar með myndum úr 70 ára starfi UÍA. Rammarnir heimsóttu alla þéttbýlisstaði á Austurlandi og glöddu þar gesti og gangandi.
Rammarnir víðförlu hafa nú lagt af stað í aðra hringferð um Austurland, að þessu sinni eru þeir stútfullir af myndum frá síðastliðnu sumri, sem var afar viðburðarríkt eins og allir vita.
Yfirskrift sýningarinnar nú er ,,Ljúfar minningar frá liðnu sumri" og má þar meðal annars sjá myndir úr Launaflsbikarnum, frá keppni og afmælisfögnuði á Sumarhátíð, svipmyndir úr farandþjálfun UÍA og Frjálsíþróttaskóla UMFÍ og síðast en ekki síst fjöldan allan af myndum frá Unglingalandsmótinu.