Um UÍA
„Laugardaginn 28. júní 1941 var haldinn fundur að Eiðum og þar rædd og ákveðinn stofnun ungmennasambands fyrir Austurland. Undirbúning að fundinum hafði annazt nefnd, kosin af sambandi Eiðamanna. Nefndina skipuðu þrír menn, skólastjóri og kennarar Eiðaskóla, þeir Þórarinn Þórarinsson, Þóroddur Guðmundsson og Þórarinn Sveinsson. Á fundi þessum voru mættir fulltrúar frá sex félögum, auk fundarboðenda og Ingólfs Kristjánssonar tollvarðar, en hann mætti fyrir hönd Íþróttaráðs Austurlands. Stofnað var Ungmennasamband Austurlands - U. M. S. A. - og samin lög fyrir það. Flestir fundarmanna skrifuðu þó undir lög sambandsins með fyrirvara, þar sem þeir töldu sig ekki hafa nægilega traust umboð frá viðkomandi félögum.Sambandssvæðið var Múlasýslur báðar. Sambandinu var valið lögheimili að Eiðum.
Kosin var fimm manna stjórn og jafnmargir til vara.
Skólastjóri Eiðaskóla, Þórarinn Þórarinsson, sagði við þetta tækifæri, að allar dyr Eiðaskóla skyldu standa opnar fyrir starfsemi ungmennasambands á Austurlandi. Var þeim orðum vel fagnað og þótti af vinsemd mælt.“
Svo hljóðar lýsing Skúla Þorsteinssonar á stofnfundi héraðssambands á Austurlandi, sem hann ritaði í Snæfell á fimm ára afmæli UÍA. Á sambandsþingi árið eftir var nafni sambandsins breytt í Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands og gekk sambandið til liðs við bæði UMFÍ og ÍSÍ, fyrst héraðssambanda.
Alla tíð síðan þá hefur UÍA skapað kjölfestuna í austfirsku æskulýðs- og íþróttastarfi ásamt ungmenna- og íþróttafélögunum og staðið fyrir ótal samkomum, mótum, námskeiðum og síðast en ekki síst verið ötull talsmaður austfirskrar æsku á landsvísu.