Jafnréttisstefna
Markmið jafnréttisstefnu UÍA er að tryggja að allir innan ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar á Austurlandi séu meðvitaðir um ábyrgð sína og áhrifamátt í jafnréttismálum og uppfylla að farið sé að lögum um jafna stöðu ólíkra þjóðfélagshópa.
Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA) leggur ríka áherslu á jafnrétti kynjanna og að allir iðkendur innan vébanda sambandsins geti iðkað íþrótt sína óháð kynferði, trúarbrögðum, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, litarhætti, efnahag, kynhneigð eða stöðu að öðru leyti. UÍA leitar eftir samstarfi við aðildarfélög sín til að þetta megi verða.
Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands leggur ríka áherslu á jafnrétti kynjanna hvað varðar aðstöðu, þjálfun og fjármagn Þetta skal haft í huga við skipulag mótahalds, skipulag æfinga eða æfingabúða auk úthlutunar styrkja.
Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands hvetur bæði konur og karla til þátttöku í innra starfi sambandsins og að í ábyrgðarstörf innan þess veljist sem jafnast hlutfall karla og kvenna hverju sinni.
Jafnréttisstefnan skal vera samofin öllu starfi og markvisst fléttuð inn í alla stefnumótun og verklag innan sambandsins. Gæta skal þess að ýta ekki undir staðalímyndir kynjanna.
UÍA hvetur aðildarfélög sín til að vinna að og samþykkja jafnréttisstefnu fyrir sín félög svo huga megi að jafnrétti kynjanna alveg niður í grasrótina.