Körfuknattleikslið Hattar í 4. sæti eftir spennandi rimmur um helgina
Körfuknattleikslið Hattar beið lægri hlut gegn Skallagrími í undanúrslitum í úrslitakeppni 1. deildar karla og hefur þar með lokið keppni í 1. deildinni á þessu tímabili.
Fyrri viðureign liðanna fór fram í Borgarnesi á föstudagskvöldið. Þar var hart barist en okkar menn urðu undir með 99 stigum gegn 105 stigum heimamanna. Seinni leikur liðanna var í íþróttahúsinu á Egilsstöðum í gær. Þrátt fyrir dyggan stuðning áhorfenda, vasklega framgöngu okkar manna og jafnan leik framan af höfðu Borgfirðingar sigur 88 stig gegn 77 stigum Hattar.
Liðið getur þó vel við unað eftir ágætt tímabil. 4. sæti deildarinnar og hörð keppni um 2. sætið er besti árangur liðsins í mörg ár. Liðið er ungt og reynslunni ríkari eftir tímabilið. Einnig var jákvætt að sjá hve margir stuðningsmenn hvöttu liðið áfram og hve mikið fjölgaði á pöllunum þegar á leið keppnina Allt á réttri leið í körfunni!
Mynd: Stefán Bogi Sveinsson.