Líf og fjör hjá skíðafólki
Það var í nógu að snúast hjá austfirsku skíðafólki um síðustu helgi og verður áfram.
Fjöldi keppenda 12 ára og yngri frá Skíðafélaginu í Stafdal og Skíðafélagi Fjarðabyggðar heimsóttu félaga sína í Mývetningi heim og kepptu þar á Kröflumóti. Á laugardaginn léku veðurguðirnir við hvurn sinn fingur og keppni í svig og stórsvigi gekk vel.
Auk þess að bruna um brekkunar gæddu keppendur sér á grilluðum pylsum, svömluðu í Jarðböðunum og skemmtu sér saman á kvöldvöku. Á sunnudeginum þurfti hinsvegar að aflýsa keppni vegna veðurs en í stað þess fengu keppendur kynningarferð um Kröfluvirkjun og höfðu gagn og gaman af.
Í gær var blásið til Oddskarðsmóts þar sem meðal annars þeim keppendum, sem urðu af keppni vegna veðurs deginum áður, gafst færi á að spreyta sig. Aðstæður voru hinar bestu og allt gekk að óskum.
Næstu helgi fer svo fram Austurlandsmót í Stafdal. Þar verður keppt í svigi og stórsvigi í flokkum 8 ára og yngri, 9-10 ára og 11 ára og eldri. Nánari upplýsingar um mótið má finna hér á heimasíðu Skíðafélagsins í Stafdal.
Hér til hliðar má sjá mynd af hrssum skíðakrökkum á Kröflumóti, myndin er fengin af vef Skíðafélagsins í Stafdal.