Meistaramót Íslands í flokkum 35 ára og eldri var haldið helgina 12. til 13. janúar s.l. í Laugardalshöll. Alls voru 58 keppendur skráðir til leiks, þar af tvær kempur sem keppa undir merkjum Austurlands. Sigurður Haraldsson Leikni sigraði í flokki 80-84 ára og setti að auki Íslandsmet með kasti upp á 9,27, en ljóst er að keppendur í þessum flokki voru í fanta formi enda köstuðu þrír þeirra lengra en gamla Íslandsmetið.
Fyrirlestri Dr. Viðars Halldórssonar, sem vera átti í Hlymsdölum á Egilsstöðum klukkan 17:15 í dag hefur verið frestað. Búið er að aflýsa öllu flugi fram yfir fund. Ný dagsetning verður gefin út síðar.
Þá er komið að fjórða hlaupinu í vetrarhlaupasyrpu Hlaupahéranna en það fer fram næstkomandi laugardag. Eins og vanalega verða hlauparar ræstir af stað frá íþróttahúsinu á Egilsstöðum kl. 10:00 en skráning hefst hálftíma fyrir hlaup. Skráningargjald er 1000 krónur og innifalin er létt hressing og aðgangur að sundlauginni að hlaupi loknu. Allir sem taka þátt eiga þess kost að fá vegleg útdráttarverðlaun sem að þessu sinni koma frá hárgreiðslustofunni Caró á Egilsstöðum.
Stórmót ÍR fór fram í Laugardalshöll síðastliðna helgi. Keppnin var bæði fjölmenn og fjölbreytt en 760 keppendur voru skráðir til leiks, í flokkum allt frá 8 ára og yngri og upp í fullorðinsflokka. UÍA átti tvo keppendur á mótinu og stóðu þeir sig með stakri prýði.
UÍA ætlar að senda fyrirlestur Dr. Viðars Halldórssonar þar sem hann kynnir niðurstöður fyrir Austurland úr rannsókn á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda og fleira meðal ungmenna í 8. - 10. bekk út á netinu.
Ánægjuvogin er könnun sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að í sameiningu á stöðu íþróttastarfs, ánægju iðkenda, stöðu áfengis og tóbaksnotkunar og fleira meðal sambandsaðila í 8.-10.bekk.
Mánudaginn 28.janúar munu UMFÍ og ÍSÍ standa í sameiningu fyrir fundi á Egilsstöðum í Hlymsdölum og hefst fundurinn klukkan 17:15.
Ávaxtamót UÍA og Loðnuvinnslunnar hf. í frjálsum íþróttum fór fram á Fáskrúðsfirði síðastliðinn laugardag.
40 keppendur frá 7 félögum spreyttu sig í boltakasti, spretthlaupi og langstökki án atrennu.
Mótið var helgað yngstu kynslóðinni en keppendur voru á aldrinum 4-10 ára. Þar fara jafnan saman frjálsar íþróttir og fjör, og árangur ekki síður mældur í brosum en sekúndum og sentimetrum.
Um helgina fer fram FIS/Bikarmót fyrir 16 ára og eldri í Oddsskarði. Þangað koma til keppni allt helsta skíðafólk landsins og nú síðustu dagana fyrir mót æfir Landslið Íslands í alpagreinum í Oddskarði.
Við hvetjum skíðafólk að skella sér í fjallið, bæði fyrir helgina og um helgina, til að fylgjast með okkar besta skíðafólki á æfingum og í keppni.
Frjálsíþróttaráð UÍA stendur fyrir hinu árlega Ávaxtamóti í frjálsum íþróttum og fer það fram í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði næstkomandi laugardag og hefst kl 12:00. Að vanda er keppninn ætluð 10 ára og yngri, og áhersla lögð á jákvæða upplifun af íþróttinni, gleði og gaman.
Þátttakendur fá að spreyta sig í spretthlaupi, langstökki án atrennu og boltakasti, en að auki verður ávaxtaboðhlaup og þrautabraut en reikna má með að glaðbeittir ávextir taki þar þátt.