UÍA menn á stormandi ferð á Stórmóti ÍR
Stórmót ÍR fór fram í Laugardalshöll síðastliðna helgi. Keppnin var bæði fjölmenn og fjölbreytt en 760 keppendur voru skráðir til leiks, í flokkum allt frá 8 ára og yngri og upp í fullorðinsflokka. UÍA átti tvo keppendur á mótinu og stóðu þeir sig með stakri prýði.
Daði Þór Jóhannsson Leikni keppti í flokki 13 ára stráka og fór þar mikinn. Daði sigraði í 200 m hlaupi á tímanum 28,93 sek, varð annar í langstökki með stökki upp á 4,57 m og í 60 m hlaupi á tímanum 8,78 sek, í hástökki hafnaði hann í þriðja sæti er hann vippaði sér yfir 1,37 og einnig varð hann þriðji í 600 m hlaupi á tímanum 1.49,91 mín. Mikael Máni Freysson í Þristi keppti í flokki 15 ára drengja og varð annar í 400 m hlaupi á tímanum 58,25 sek og í þrístökki með stökk upp á 10,77 m, auk þess varð hann þriðji í hástökki er hann fór yfir 1,62 m.
Fleiri en okkar menn stóðu sig vel á mótinu. Aníta Hinriksdóttir ÍR sló 32 ára gamalt Íslandsmet Ragnheiðar Ólafsdóttur í 1500m hlaupi kvenna en Aníta hljóp á 4:19,57 mín, Kolbeinn H. Gunnarsson UFA sigraði á nýju glæsilegu Íslandsmeti 48,03 sek í 400 m hlaupi karla.
Á myndinni hér til hliðar má sjá Daða Þór á harða spretti á ULM í sumar.