Hjólreiðakeppnin Tour de Ormurinn fer fram á laugardaginn 13. ágúst. Það verður blásið til keppninnar í fimmta sinn í ár og búast má við hraðri og spennandi keppni, en í fyrra féllu öll brautarmet sem fallið gátu.
Keppnisvegalendir eru tvær annars vegar 68 km, sem hvoru tveggja er hægt að hjóla sem einstaklingur eða í liði og 103 km sem er eingöngu boðið upp á í einstaklingskeppni. Opið er fyrir skráningar fram til kl 20:00 á fimmtudagskvöld 11.ágúst og fara skráningar fram hér
Á dögunum hóf Erla Gunnlaugsdóttir störf sem nýr sumarstarfsmaður hjá UÍA. Erla er frá Egilsstöðum og er uppalin í kringum íþróttastarf, aðallega í frjálsum íþróttum og fimleikum. Erla stefnir á nám við Háskólann á Akureyri næsta haust. Erla hefur setið í Frjálsíþróttaráði UÍA og fór á Ungmennaþing í Sviss árið 2014 á vegum Evrópska Frjálsíþróttasambandsins.
Eitt af hennar fyrstu verkefnum var að hefja farandsþjálfunina og hófst hún í gær með æfingum á Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Neskaupsstað. Helstu markmið með farandþjálfuninni er að kynna fyrir krökkum fjölbreytta hreyfingu og stuðla að heilbrigðum lífsstíl. Í farandþjálfuninni í ár verður margvísleg hreyfing kynnt og má þar nefna bogfimi, fimleikar, glíma og frjálsar íþróttir.
Bílaleigan Enterprise var svo dásamleg að styrkja farandsþjálfunarverkefnið og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.
Mánudaginn 25.júlí 2016 klukkan 17:00 verður haldin samæfing í frjálsum íþróttum á Vilhjálmsvelli. Æfingin er opin öllum áhugasömum og af öllu austurlandi 11 ára og eldri. Fjöldi þjálfara verður á svæðinu og er þátttaka iðkendum að kostnaðarlausu. Þetta er frábær upphitun fyrir Unglingalandsmótið sem haldið verður í Borganesi yfir verslunarmannahelgina. Flott tækifæri að æfa við toppaðstæður og undir leiðsögn reyndra þjálfara.
Einnig minnum við á að skráningafrestur fyrir Unglingalandsmótið rennur út á miðnætti laugardags og því ættu allir að drífa sig að skrá sig, frábær skemmtun sem enginn ætti að láta framhjá sér fara! :D
Flautað verður til leiks í bikarkeppni UÍA og Launafls í knattspyrnu um helgina. Sjö lið eru skráð til leiks að þessu sinni. Leikin verður einföld umferð í deild og svo úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna í ágúst. Spyrnir fagnaði sigri í fyrra eftir sigur á Leikni í framlengdum leik. Bæði liðin mæta til leiks í ár.
Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, glímukappi úr glímudeild Vals á Reyðarfirði stóð uppi sem sigurvegari á Evrópumeistaramótinu í keltneskum fangbrögðum sem fram fór í Brezt Frakklandi í síðustu viku.
Sumarhátíð UÍA og Sildarvinnslunnar fer að vanda fram á Egilsstöðum aðra helgina í júlí. Dagskrá hátíðarinnar er einkar fjölbreytt og glæsileg og alveg ljóst að íþróttafólk á öllum aldri, og jafnvel örgustu antisportistar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Opnað hefur verið fyrir skráningar og við hvetjum Austfirðinga sem og gesti fjórðungsins til að taka duglega þátt í þessu ævintýri með okkur. Þökkum þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa lagt okkur lið.
Dagskrá hátíðarinnar er birt með fyrirvara um að allt í í heiminum hverfult og breytingum háð:
Hreyfivika UMFÍ hófst í gær 23. maí og stendur til 29. maí. Vikan er mörgum Austfirðingum orðin að góðu kunn, en um er að ræða Evrópuverkefni sem miðar að því að koma sem flestum Evrópubúum á hreyfingu og hvetja þá sem ekki hreyfa sig reglulega að finna sér hreyfingu við hæfi og stunda hana sér til gagns og gleði. Hér eystra verða fjölbreyttir og skemmtilegir viðburðir um allan fjórðung en viðburðir verða í öllum átta sveitarfélögum UÍA, má þar nefna: Sjósund á Djúpavogi, Fjölskyldugöngu að Strútsfossi í Fljótsdalshreppi, Zumbapartý á Borgarfirði eystra, Strandblaknámskeið á Norðfirði, Hugleiðslu og morgunjóga á Seyðisfirði, Skvísu og skellibjöllu kvennahjólreiðaferð á Fljótsdalshéraði, gönguferð á Breiðdalsvík og Fótboltagolf á Vopnafirði. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.