Hreyfivika UMFÍ í fullum gangi
Hreyfivika UMFÍ hófst í gær 23. maí og stendur til 29. maí. Vikan er mörgum Austfirðingum orðin að góðu kunn, en um er að ræða Evrópuverkefni sem miðar að því að koma sem flestum Evrópubúum á hreyfingu og hvetja þá sem ekki hreyfa sig reglulega að finna sér hreyfingu við hæfi og stunda hana sér til gagns og gleði. Hér eystra verða fjölbreyttir og skemmtilegir viðburðir um allan fjórðung en viðburðir verða í öllum átta sveitarfélögum UÍA, má þar nefna: Sjósund á Djúpavogi, Fjölskyldugöngu að Strútsfossi í Fljótsdalshreppi, Zumbapartý á Borgarfirði eystra, Strandblaknámskeið á Norðfirði, Hugleiðslu og morgunjóga á Seyðisfirði, Skvísu og skellibjöllu kvennahjólreiðaferð á Fljótsdalshéraði, gönguferð á Breiðdalsvík og Fótboltagolf á Vopnafirði. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Dagskrá Hreyfiviku í hinum ýmsu sveitafélögum má finna hér fyrir neðan:
Ýmsar keppnir milli eru í gangi milli sveitarfélaga landsins í tilefni vikunnar. Austfirðingar standa sig með ágætum eins í þeim og vert að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að vera með og leggja sitt af mörkum.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá UMFÍ þá leiða íbúar Fljótsdalshéraðs í Sidekick leik vikunnar. Sidekick er einfalt og skemmtilegt hreyfiapp þar sem þátttakendur geta haldið utan um hreyfingu, slökun og mataræði. Hér má finna nánari upplýsingar um appið og leikinn.
Sundkeppni sveitarfélaganna er nú í gangi í annað sinn. Íbúar taka þátt með því að skrá, í afgreiðslu sundlauganna, fjölda metra sem þeir hafa synt. Seyðisfjörður er nú í fjórða sæti í keppninni og Esklifjörður í því sjötta og Fljótsdalshérað í 11. sæti.