Vekjum athygli á að áhugamenn um skautaíþróttir á Austurlandi hyggjast stofna Skautafélag Austurlands. Stofnfundur félagsins verður nú á fimmtudaginn 20. janúar á Kaffi Egilsstöðum kl 20.00. Félaginu ætlað að þjóna öllu mið Austurlandi og eru allir velkomnir á fundinn.
Formaður og framkvæmdstjóri áttu fund með stjórnum aðildarfélaga á Eskifirði nú í vikunni. Eins og á fyrri fundum, með aðildarfélögum víðsvegar um Austurland, var markmið fundarins að gefa aðildarfélögunum skýrari sýn á starf UÍA og kynnast starfi félaganna sjálfra betur.
Frjálsíþróttaráð UÍA blæs til fjörugrar frjálsíþróttahelgi dagana 15.-16. janúar.
Laugardaginn 15. janúar fer fram á Reyðarfirði hið árlega Meistaramót UÍA í frjálsum íþróttum fyrir 11 ára og eldri og á sunnudeginum 16. janúar verður Frjálsíþróttadagur UÍA haldinn á Egilsstöðum.
Frjálsíþróttaráð UÍA efndi til Frjálsíþróttadags UÍA sunnudaginn 16. janúar. Þar var líf og fjör enda boðið uppá margvíslegar æfingar jafnt fyrir byrjendur sem og lengra komna. Um 17 krakkar á aldrinum 11-16 ára tóku þátt og var í þeim hópi bæði að finna þrautreyndar frjálsíþróttakempur sem og krakka sem voru að stíga sín fyrstu spor í greininni.
Frjálsíþróttaráð fékk til liðs við sig gestaþjálfara Ara Jôsavinsson frá UMSE og stjórnaði hann hópnum á æfingum og hélt auk þess fyrirlestur um íþróttaiðkun og mátt hugarfars í íþróttaþjálfun. Þökkum við Ara og þátttakendum í Frjálsíþróttadeginum kærlega daginn.
Myndir af fræknum frjálsíþróttakrökkum má sjá hér.
Fjórar blakkonur frá Blakdeild Þróttar í Neskaupsstað, þær Helena Kristín Gunnarsdóttir, Kristín Salín Þórhallsdóttir, Miglena Apostolova og Zaharina Filipova, eiga sæti í íslenska kvennalandsliðinu í blaki. Urðu þær ásamt stöllum sínum í íslenska landsliðinu í þriðja sæti á Novotel Cup boðsmótinu sem fór fram í Lúxemborg 7.-9. janúar
Íþróttafélagið Höttur sá um framkvæmd Þrettándagleði Fljótsdalshéraðs í gær. Veður og vindar settu nokkuð strik í dagskrána og var hún flutt inní íþróttahúsið. Á Þrettándagleðinni verðlaunar Höttur jafnan þá íþróttamenn sem þótt hafa skarað fram úr á árinu. Björn Ingimarsson bæjarstjóri ásamt Davíð Þór Sigurðarsyni formanni Hattar sáu um afhendinguna.
Íþróttamaður Hattar 2010 var Daði Fannar Sverrisson, frjálsíþróttamaður. Daði Fannar er efnilegur íþróttamaður sem stundar íþrótt sína af samviskusemi og dugnaði. Hegðun hans og framkoma er til fyrirmyndar jafnt í keppni sem og á æfingum. Hann er ávallt einbeittur og jákvæður og tekur sigrum jafnt sem ósigrum af yfirvegun.
Meistaramót UÍA í frjálsum íþróttum fór fram í Fjarðahöllinni á Reyðarfirði 15. janúar. Þar mættu um 30 keppendur frá 7 félögum til leiks. Keppt var í aldursflokkum 11 ára, 12-13 ára, 14-15 ára og 16 ára og eldri hjá báðum kynjum, í 60 m hlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi og hringhlaupi. Framkvæmd mótsins gekk vel og víða sáust skemmtileg tilþrif.
Þökkum við þátttakendum og sjálfboðaliðum kærlega fyrir ánægjulegt mót.
Föstudaginn 14. janúar fer fram Nýárssýning Fimleikadeildar Hattar í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Á sýningunni munu um 200 iðkendur sýna listir sýnir og er þema sýningarinnar í ár Sirkus.