Endurvakning Frjálsíþróttaráðs

Fyrsti fundur Frjálsíþróttaráðs UÍA í alllangan tíma var haldinn í gær. Hafin er vinna við skipulagningu frjálsíþróttamála á sambandssvæðinu.

 

Tekið var af skarið og ákveðið að stefnt skuli að því að meistaramót UÍA í frjálsum íþróttum innanhúss verði haldið 25. janúar 2009. Áætluð staðsetning mótsins er Fjarðarbyggðarhöllin en þar er til staðar góð aðstaða til iðkunar frjálsra íþrótta innanhúss. Frjálsíþróttaráð mun funda næst í fyrstu viku janúar á nýju ári og í framhaldi af því mun mótið verða frekar auglýst.

Allir sem áhuga hafa á því að vinna að undirbúningi mótsins eða því að taka þátt í starfi Frjálsíþróttaráðs eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu UÍA.

 

 

Alcoa og Æskulýðssjóður styrkja verkefni UÍA

Félagsmálaskóli UÍA hefur hlotið myndarlega styrki úr Samfélagssjóði Alcoa og Æskulýðssjóði.

 

Æskulýðssjóður styrkir m.a. verkefni sem miða að þjálfun forustufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða.

Alcoa veitir samfélagsstyrki og njóta þau verkefni forgangs sem stuðla að uppbyggingu og sjálfbærri þróun á Austurlandi. Meðal málaflokka sem fyrirtækið styrkir eru menntun og fræðsla og menning, tómstundir og félagsstörf. Við þessa úthlutun var lögð áhersla á að styrkja verkefni sem auka samveru og samvinnu fólks á Austurlandi.

UÍA þakkar stuðninginn og vonast til að Félagsmálaskólinn geti náð þeim markmiðum sem að er stefnt.

 

Stökk inn á forsíðuna

Bergsveinn Ás Hafliðason, stökk sig upp á verðlaunapall og inn á forsíðu Snæfells á seinustu Sumarhátíð.

Bergsveinn Ás, sem er átta ára og keppir fyrir Neista, prýddi forsíðu seinasta tölublaðs Snæfells sem kom út fyrir jól. Hann mun hafa tjáð fjölskyldu sinni að myndin hefði verið tekin þegar hann stökk sig upp í þriðja sæti í langstökki polla 8 ára og yngri á seinustu sumarhátíð með stökki upp á 2,87 metra.
Aðrar forsíðumyndir blaðsins voru teknar á Sumarhátíðinni af Gunnari Gunnarssyni.

SÚN styrkir samfélagsverkefni

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, SÚN, veitti á þriðjudagskvöld þrettán milljónum króna til ýmissa samfélagsverkefna á Norðfirði. Er þetta í fyrsta sinn sem veitt er fé úr nýjum styrktar- og menningarsjóði félagsins. Tuttugu og sex einstaklingar og samtök hlutu styrki þar af vegna ýmissa verkefni á sviði íþrótta og æskulýðsstarfs.

 

UÍA lýsir yfir mikilli ánægju með þessa veglegu styrkveitingu og vonast eftir því að fleiri öflug fyrirtæki í fjórðungnum sjái sér fært að styðja æskulýðs- og íþróttastarf með svo myndarlegum hætti.

Styrkþegar og fjárhæðir

Olga Lísa Garðarsdóttir vegna Leikfélagsins Djúpsins í VA. 400.000
Elsbieta Arsso Cwalinska vegna Ljóðabókarinnar Stjarnan og fjörðurinn. 50.000
Ólafía Elín Ólafsdóttir vegna Dags harmonikunnar. 100.000
Margrét Perla Kolka vegna tónlistarmeðferðar í Nesskóla. 400.000
Ari Benediktsson vegna varðveislu Þórsskúrsins. 1.500.000
Magni Kristjánsson v. mynd og hljóðvæðingar Tryggvasafns. 400.000
Jón Hilmar Kárason v. starfsemi Blúsklúbbsins. 300.000
Anna Bjarnadóttir v. starfsemi Listasmiðju Norðfjarðar. 800.000
Theodóra Alfreðsdóttir v. endurbyggingar Þórsmerkur. 1.500.000
Birta Sæmundsdóttir v. kvikmyndaklúbbs Atoms. 250.000
Anna Margrét Sigurðardóttir v. foreldrafélags Nesskóla. 150.000
Sigrún Júlía Geirsdóttir v. starfsemi Blæs hestamannafélags. 300.000
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir v. ferðakostn. Blakdeildar Þróttar. 400.000
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir v. strandblaksvallar í Neskaupstað. 300.000
Arnar Guðmundsson v. knattspyrnuakademíu í Neskaupstað. 400.000
Arnar Guðmundsson v. lýsingar á Norðfjarðarvöll. 1.000.000
Olga Lísa Garðarsdóttir v. íþróttaakademíu VA. 300.000
Rut Hafliðadóttir v. starfsemi Sunddeildar Þróttar. 250.000
Ármann Örn Sigursteinsson v.Íslandsmóts í snjókross. 100.000
Eysteinn Þór Kristinsson v. ungbarnaíþróttaskóla Þróttar. 350.000
Karl R. Róbertsson v. skíðadeildar Þróttar og bikarmótaraðar. 400.000
Páll Björgvin Guðmundsson v. útsýnis- og veitingaaðstöðu við Norðfjarðarvita. 200.000
Ína D. Gísladóttir v. endurnýjunar merkinga á gönguleiðum. 250.000
Sigurður Rúnar Ragnarsson v. búnaðar f. fæðingadeild FSN. 1.500.000
Pétur Sörensson(Guðmundur Sveinsson. v. Skjala- og myndasafns Norðfjarðar. 1.100.000
Ragnheiður Hall v. Kvenfélagsins Nönnu. 300.000

 

Vel heppnaður formannafundur

Þann 22. október sl. var formannafundur UÍA haldinn í Grunnskólanum á Stöðvarfirði

Á formannafundi eiga seturétt formaður, stjórn, varastjórn, formenn sérráða og framkvæmdastjóri UÍA. Formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaga UÍA eða fulltrúar þeirra, og formenn eða aðrir fulltrúar sérráða aðildarfélaga. Aðeins stjórnarmenn UÍA, formenn eða fulltrúar sérráða UÍA og einn fulltrúi frá hverju aðildarfélaga hafa þó atkvæðisrétt á fundinum.

Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar og sérráða UÍA auk þess sem þau aðildarfélög sem áttu fulltrúa á fundinum gerðu grein fyrir sinni starfsemi. Þá var ársreikningur fyrir árið 2007 kynntur. Góðar umræður fóru fram um stefnumörkun fyrir UÍA og samþykktar voru nokkrar ályktanir sem snúa að starfi sambandsins. Margt góðra gesta var á fundinum. Einar Haraldsson stjórnarmaður í UMFÍ og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ ávörpuðu fundinn og auk þeirra sátu fundinn Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Helga Steinunn Guðmundsdóttir stjórnarmaður í ÍSÍ.

Á fundinum fékk fimleikadeild Hattar á Egilsstöðum endurnýjaða vottun sem fyrirmyndardeild. UÍA óskar deildinni innilega til hamingju með það og lýsir yfir eindreginni ánægju með hið góða starf sem þar er unnið.

Hér að neðan má sjá fundargerð fundarins, þær tillögur sem á fundinum voru samþykktar, skýrslu stjórnar og fylgiskjal með henni.

icon fundargerd_formannafundur_okt2008.doc

icon alyktanir.doc

icon skyrsla_stjornar.doc

icon fundir.doc

Uppskeruhátíð Sunddeildar Austra árið 2008

Sunddeild Austra á Eskifirði hélt sína árlegu uppskeruhátíð í dag á Kaffihúsinu á Eskifirði en þar mættu foreldrar barna sem stundað hafa sundþjálfun auk þjálfara og annarra velunnara deildarinnar.

 

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir árangur og þátttöku í sundstarfinu á árinu. Virkir iðkendur í deildinni eru nú 15 í aldursflokkaþjálfun og hafa reglubundnar æfingar verið allt árið.

Brynja Gunnarsdóttir hlaut titilinn sundmaður ársins 2008. Þá fengu Veiga Petra Guðbjörnsdóttir, Ásbjörn Eðvaldsson og Jónas Orri Wilhelmsson viðurkenningar fyrir bestu ástundunina í hverjum aldursflokk auk Brynju.

Farið var í fáum orðum yfir starf sunddeildarinnar á árinu og árangur. Hefur deildin tekið þátt í sundmótum á Dalvík, Egilsstöðum og Norðfirði. Hefur árangur deildarinnar verið ágætur enda skipa deildina hópur áhugasamra keppenda sem hafa látið til sín taka. Færðar voru þakkir öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn í starfi deildarinnar á árinu. Nú tekur við vetrarfrí sem stendur fram í byrjun febrúar en þá eru áformaðar æfingar. Þá verður stefnan tekin á að bæta og efla starf deildarinnar.

Afhentar voru yfirhafnir frá Cintamani sem nýttar verða sem einkennisfatnaður deildarinnar á mótum og viðburðum. Enginn fór svangur heim úr hófinu því boðið var uppá pizzahlaðborð og spilað var svo “actionary” þar sem tókust á foreldrar og börn og að sjálfsögðu unnu börnin með yfirburðum.

 

UÍA fólk á Silfurleikum

Þrír keppendur UÍA tóku nýverið þátt í Silfurleikum ÍR í frjálsum íþróttum. Mótið er haldið til heiðurs árangurs Vilhjálms Einarssonar sem vann silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum árið 1956. Metþátttaka var í mótinu að þessu sinni, ríflega 600 keppendur frá 20 félögum.

 

Frá UÍA fóru þau Heiðdís Sigurjónsdóttir (Hetti), Halla Helgadóttir (Hetti) og Mikael Máni Freysson (Þristi). Árangur þeirra má sjá í meðfylgjandi skjali.


icon uia_silfurleikar.doc

 

Góður árangur glímufólks

Frábær árangur náðist á Haustmóti Glímusambands Íslands sem haldið var á Ísafirði um liðna helgi. UÍA sendi níu keppendur á aldrinum 13-15 ára ásamt Sindra Frey Jónssyni þjálfara og Ásmundi Ásmundssyni fararstjóra.

 

Sveitir UÍA í flokki 12-13 ára stráka og stelpna unnu báðar til gullverðlauna í sínum flokki. Að auki varð uppskeran úr einstaklingskeppninni þrjú gull, þrjú silfur og eitt brons. Frekari upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðunni www.glima.is.

Glímustarf stendur með miklum blóma hjá Val á Reyðarfirði. Þar eru æfingar tvisvar í viku, þriðjudaga 18-19 og föstudaga 17-18. Þjálfarar eru Sindri Freyr Jónsson og Hjördís Helga Þóroddsdóttir. Alla jafna stunda um 30 krakkar 10 ára og eldri glímuæfingar þar.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok