Íþróttafólk og dugnaðarforkar Hattar heiðraðir á Þrettándagleði
Þann 6. Janúar fór fram þrettándagleði Fljótsdalshéraðs og Hattar með hefðbundnu sniði. Kyndlaganga lagði af stað kl 17:15 frá íþróttahúsinu og gengið var í Tjarnargarðinn þar sem brenna var tendruð. Áætlað er að um 200 manns hafi komið saman og var veður með besta móti. Davíð Þór Sigurðarson, formaður Hattar setti athöfnina. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs flutti stutt erindi og fór yfir árið.
Verðlaunaafhending íþróttamanna ársins var kynnt en það var Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs ásamt formanni Hattar, Davíð Þór Sigurðarsyni sem sáu um afhendinguna. Er þetta í 28. sinn sem tilfnefndin á íþróttamanni Hattar fer fram. Eftir afhendingu var síðan glæsileg flugeldasýning sem Björgunarsveitin á Héraði sá um að framkvæma og sönghópurinn Liljurnar sáu um söng.
Starfsmerki Hattar voru veitt í fjórða sinn en þau hljóta einstaklingar sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu félagsins til lengri tíma.
Hjálmþór Bjarnason hlýtur starfsmerki Hattar fyrir vinnu sína í þágu félagsins en hann hefur starfað innan frjálsíþróttagreinarinnar í mörg ár, gengndi gjaldkerastöðu í frjálsíþróttadeild í rúmlega 6 ár. Hjálmþór hefur einnig tekið þátt sem starfsmaður keppnismóta á Fljótsdalshéraði í mörg ár.
Hrafnhildur S. Þórarinsdóttir hlýtur starfsmerki Hattar fyrir vinnu og stjórnarsetu en hún hefur meðal annars gegnt formannstöðu hjá fimleikadeild og skíðadeild. Einnig hefur hún setið í yngraflokkaráði knattspyrnudeildar og verið virkur þáttakenda í foreldrastarfi ýmissa deilda. Hrafnhildur hlaut starfsmerki UÍA árið 1999.
Íþróttamaður Hattar árið 2015 var körfuboltamaðurinn, Benedikt Þ. Guðgeirsson Hjarðar.
Benedikt stóð sig vel síðasta keppnistímabil með meistaraflokksliði Hattar og var fyrirliði liðsins þegar Höttur vann 1. Deildina með miklum yfirburðum. Benedikt hefur mikið lagt á sig til að ná bættum árangri og er góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina um hvernig er hægt að leggja sitt að mörkum fyrir félagið, bæði innan sem utan vallar.
Í öðrum greinum voru eftirtaldir einstakilngar fyrir valinu þetta árið.
Blakmaður : Valgerður Dögg Hreinsdóttir
Fimleikamaður: Arna Ormarsdóttir
Frjálsíþróttamaður : Helga Jóna Svansdóttir
Knattspyrnumaður : Runólfur Sveinn Sigmundsson
Körfuboltamaður : Benedikt Þ. Guðgeirsson Hjarðar
Íþróttafélagið Höttur vill þakka eftirtöldum styrktaraðilum fyrir stuðninginn vegna framkvæmdar þrettándagleði 2015, Brúnas – Innréttingar , Mannvit, Hitaveita Egilsstaða og Fella, Landsbankinn.