Fundargerð 20150727

Fundur í stjórn UÍA 27. júlí 2015 kl. 18:00.
Haldin á skrifstofu UÍA á Egilsstöðum

Mættir: Gunnar Gunnarsson, Jósef Auðunn Friðriksson, Reynir Zöega, Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Pálína Margeirsdóttir og Vigdís Diljá Óskarsdóttir sumarstarfsmaður.


1. Síðasta fundagerð
Fundargerð síðasta fundar lesin og rædd.

Fundagerðin samþykkt án athugasemda.


2. Innsend erindi

Styrkur til NSU fara
Rebekka Karlsdóttir sækir um styrk til að sækja ungmennaviku NSU í Danmörku í ágúst.

Samþykkt að styrkja hana um 20.000 krónur sem tekið verður af liðnum “leiðtogaþjálfun”.


3. Skýrsla skrifstofu

Frjálsíþróttaskóli
Fór fram dagana 22.-26. júní sl. Þáttakendur voru 14 talsins víða af Austurlandi. Gist var í félagsmiðstöðinni Ný-ung en ef verkefnið verður aftur á næsta ári er möguleiki að ekki verði hægt að gista þar aftur sökum brunavarna. Vikan gekk vel fyrir sig en var mikið álag þar sem báðir starfsmenn eða önnur voru í skólanum frá 8:30-22:30 og því sat skrifstofan á hakanum á meðan. Álagið orsakaðist aðallega af einstaklingum innan hópsins sem þurftu meira aðhald en önnur börn. Það sem bjargaði í rauninni málunum var Pálína sem var næturvörður, þrátt fyrir veikindi, og sá algjörlega um krakkana og var oft með í kvölddagská líka.

Staða sundmála
Ekki hefur verið haldinn annar fundur með sundráði UÍA eftir þann fyrsta, þar sem skipaður var formaður ráðsins. Sundmót Eskju á sumarhátíðinni var það þyngsta á hátíðinni að mati starfsmanna. Enginn lærður dómari er á staðnum, yfirdómara var reddað á síðustu stundu og tæknimanneskja fengin að norðan. Það voru einstaka foreldrar sem voru mjög duglegir, mættu á námskeið um mótaforritið, voru sjálfboðaliðar og almennt jákvæðir á meðan aðrir foreldrar afþökkuðu sjálfboðaliðavestið pent. Ólík stemning frá t.d. frjálsíþróttamótinu þar sem foreldrar og sjálfboðaliðar voru ótrúlega magnaðir. Það er ekki mikill vilji inná skrifstofunni fyrir því að halda annað sundmót á meðan staðan og áhuginn er svona. En ef að frumkvæðið kemur utan skrifstofunnar erum við auðvitað meira en tilbúið að styðja við það.

Launaflsbikarinn
Gengur vel, engin kærumál komin fram og leikir almennt drengilegir og skemmtilegir. Nú er síðustu umferð hinsvegar lokið og fer að líða að úrslitum sem eru í höndum UÍA að skipuleggja.

Sumarhátíð
Gekk að mestu vel. Dagskráin var stærri en nokkru sinni, sumir viðburðir (eins og street ball, crossfit og púttmót eldriborgara) gengu mjög vel og hafa líklega fest sig í sessi fyrir næstu ár. Aðrir viðburðir gengu ekki jafn vel (eins og ljóðaupplestur, sundmótið og sundleikfimi) aðallega vegna dræmrar þátttöku keppanda eða sjálfboðaliða. Þar má líklega reikna með að veðrið hafi sett strik í reikninginn. Á næsta ári þarf klárlega að fá fleiri sjálfboðaliða sem vita hvert þeirra hlutverk er og geta gengið beint í það, einhverja sem sjá td alfarið um grillveisluna og annað þvíumlíkt. Álag á starfsmenn og formann var mikið. Orsakast af því hversu dagskráin var dreifð um svæðið og fáar hendur að vinna fjölbreytt verk.

Greinamót
Fyrstu tvö greinamót UÍA og HEF eru nú búin, það seinna var miðvikudaginn 22. júlí sl. og gekk stór vel þrátt fyrir úrhelli.

Álkarlinn
Samstarfsverkefni UÍA og Alcoa þar sem þrjár Austfirskar þrekraunir eru undir sama merkinu, hjólreiðar, sund og hlaup. Auglýsingar og markaðssetning aðeins farin af stað eftir að Logo-ið fékkst staðfest. Reiknum með því að keppnin verði ekki stór í ár en muni stækka og vonandi verða vinsæl á komandi árum.

Urriðavatnssundið
Urriðavatnssundið er fyrsta þraut Álkarlsins og fór fram á laugardaginn síðastliðinn. UÍA sá um tímavörslu í samstarfi við fleiri sjálfboðaliða og gekk ágætlega. Margt sem læra má af skipulagi keppninnar sem hægt væri að nýta í skipulagi Tour de Ormurinn. HEF sem er í samstarfi við keppnina var með starfsmenn á staðnum.

Unglingalandsmót
Verður á Akureyri um helgina og á UÍA rétt rúma 100 keppendur þar. Í augnablikinu erum við a að skoða ferðakosnað. Síðastliðin ár hefur verið leigt tjald á Egilsstöðum og sendiferðabíll, til þess að m.a. flytja tjaldið. Nú erum við að skoða valkosti varðandi það.
a) er hægt að leigja tjald á Akureyri á svipaðan prís
þá væri hægt að fara á fólksbílum
b) er hægt að semja við eitthvað flutningsfyrirtæki um að flytja tjaldið (ofl) frítt fyrir okkur norður. Í staðinn myndi UÍA auglýsa á facebooksíðu og jafnvel eitthvað á/í tjaldinu.
Keppnisstaðir verða hinsvegar 29 þetta landsmótið en meðalfjöldi keppnisstaða eru uþb 11. Ofan í þetta er svo bæjarhátíð á Akureyri og rúmlega nóg að gera fyrir þann skara af keppendum sem við verðum með. Það er vert að spyrja sig, er þess virði að vera með tjald og grill/bingó/spurningakeppni/samhrysting þegar krakkarnir geta valið um það eða ball á torginu.

Tour de Ormurinn
Hjólreiðakeppni sem UÍA vinnur í samstarfi við Austurför, ferðaskrifstofu. Keppnin fer fram 15. ágúst nk. Núna er verið að safna verðlaunum fyrir keppnina og gengur ágætlega.

Skógarhlaup
Bankinn og UÍA, aðalega þau síðarnefndu, hafa séð um skipulag hlaupsins síðastliðin ár en núna er það algjörlega á herðum UÍA. Verkefnið hefur verið fjáröflun fyrir td frjálsíþróttadeildina en afrekshópurinn verður akkúrat á MÍ þessa helgi og þjálfarar með þeim. Við vitum því ekki alveg hver tekur hlaupið að sér þetta árið en ef frjálsarnar sjá sér ekki fært að taka hlaupið þá verður það líklega auglýst á heimasíðunni og facebook sem fjáröflun fyrir aðra hópa/deildir.

Álag á skrifstofu
Fyrri part sumars, sérstaklega, var mikið álag á skrifstofuna. Eftir að sumarstarfsmaður hóf störf hafði framkvæmdastýra 2 vikur með henni á skrifstofunni áður en hún var rokin út í farandþjálfun. Þar með var sumarstarfsmaður einn á skrifstofunni. Í farandþjálfun voru farnir 900 km á viku og oft á tíðum voru 2-6 á æfingum og stundum enginn. Svo kom frjálsíþróttaskólinn. Þar voru báðir starfsmenn frá morgni til kvölds. Fyrir sumarhátíð voru vinnudagar oft mjög langir og bókstaflega unnið myrkranna á milli. Þar var stuðningur formanns mikilvægur og hreint ómissandi. Sumarstarfsmaður og framkvæmdastýra vinna mjög vel saman og því rosalega margt gengið vel upp sem hefði verið töluvert erfiðara með annari samsetningu af starfsmönnum. Þær hafa báðar hugsjón fyrir íþróttaiðkunn og ungmennastarfi og því fórnfúsar á tíma sinn, en samt ... halló þær eiga líf utan vinnunar.
Til að bæta þetta ástand mætti td hafa annan starfsmann í farandþjálfuninni sem yrði kannski bara yfir sumarhátíð, eða jafnvel allt sumarið eða fækka verkefnum eða hækka laun hjá starfsmönnum þannig að hægt sé að segja að þeir fái borgað miðað við vinnu. Það miða sig allir við frjálsan markað.

Skýrsla skrifstofu rædd.


4. Hun-Ice verkefnið
Gunnar Gunnarsson, formaður, segir frá samstarfsverkefni UÍA og Gyermek í Orosháza.

Af hverju?
Í vor fékk UÍA ósk frá ungversku samtökunum GYIÖT um vera félagi í evrópsku ungmennaskiptaverkefni. Ungverjarnir báru þungann af grunn styrkumsókninni og útfærslu verkefnisins.

Hvað?
Um er að ræða verkefni þar sem aðal áhersla verður á að læra hvort af öðru, leiðtogahæfni, íþróttaiðkun og menningarlegan mismun. Verkefnið fer fram í borginni Orosháza dagana 8.-15. september en dagarnir 7. og 16. fara mjög líklega í ferðalag.
Umfangið?
12 ungmenni og 2 leiðtogar.

Fjárhagur?
Gera má ráð fyrir að flugið Keflavík-Búdapest kosti 80 þúsund, ÍSÍ fargjald Egilsstaðir-Reykjavík er 25 þúsund og flugrútan til Reykjavíkur kostar um 5 þúsund. Til einföldunar gerum við ráð fyrir 110 þúsund á hvern þátttakanda. Heildarferðakostnaður er 1,54 milljónir.
Evrópustyrkurinn er 270 Evrur á mann, eða um 40 þúsund krónur. Eftir standa 70 þúsund á mann eða alls 980.000 krónur.
Með því að láta hvern þátttakanda, aðra en leiðtoga, leggja fram 15.000 krónur eru eftir 800.000 krónur.
Sveitarfélögin hafa tekið vel í að koma að kostnaði. Ef hægt væri að sannfæra þau um að taka innanlandsflugið, 25 þúsund á mann, eru eftir 450.000 krónur.
Spurningin er hvernig það verði brúað.


Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 20:28.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ