Úr vöndu að ráða í myndasamkeppni
Dómnefndin í myndasamkeppni UÍA hafði úr vöndu að ráða. Yfir 200 teikningar frá austfirskum grunnskólabörnum bárust í keppnina.
UÍA stóð í vetur fyrir teiknisamkeppni nemenda í 1. - 4. bekk í austfirskum grunnskólum. Þema keppninnar var „Íþróttir og ungmennastarf á Austurlandi.“
Fimm austfirskir myndlistarmenn skipuðu dómnefndina þau Anna Bjarnadóttir, formaður, Ríkharður Valtingojer, Pétur Behrens, Susanne Neumann og Theodóra Alfreðsdóttir.
Dómnefndin kom saman í húsnæði UÍA á mánudag og valdi þar verðlaunamyndirnar. Átta myndir voru verðlaunaðar, tvær úr hverjum bekk. Verðlaunahöfum berast bréf um árangurinn á næstu dögum en úrslitin verða opinberuð í Snæfelli sem kemur út í lok mánaðarins.