Formannafundurinn
Formannafundur aðildarfélaga UÍA var haldin í Grunnskólanum á Reyðarfirði fimmtudaginn 11.Maí. Mæting var ágæt miðað við oft áður og mættu aðilar frá tólf aðildarfélögum, en aðildarfélög að UÍA eru 33. Það bar ýmislegt á góma á þessum fundi og íþróttalíf greinilega í miklum uppgangi í flestum félögum. Framkvæmdir á íþróttamannvirkjum á Austurlandi voru meðal þess sem formenn ræddu en stórar framkvæmdir eru víða á íþróttamannvirkjum og þá sérstaklega í Fjarðarbyggð.
Meðal þess sem verið er að vinna að þessa dagana ber fyrst að nefna Fjarðarbyggðarhöllina, en það er knattspyrnuhöll sem verið er að reisa þar sem gamli völlurinn var. Stefnt er að því að vígja höllina 17. júní næstkomandi. Önnur stór verkefni sem verið er að vinna að eru gervigrasvöllur í fullri stærð í Neskaupsstað og ný sundlaug á Eskifirði, en vígsla hennar fer einmitt fram næstu helgi. Á fundinum ljóstraði Bergur formaður Freyfaxa því upp að félagið væri hugsanlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að reisa reiðhöll hér austanlands. Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir hestamenn en þess ber að geta að iðkendum í reiðmennsku hefur fjölgað hér austanlands gríðarlega síðustu ár. Hestamannafélagið Blær er einnig stórhuga og eru þeir með áform um að reisa reiðskemmu í Neskaupsstað á næstu árum. Það er ljóst að uppgangur er í langflestum íþróttagreinum hér fyrir austan en þó ekki öllum. Mikil lægð hefur verið í frjálsíþróttum hér fyrir austan síðustu ár og lýstu menn áhyggjum sínum yfir því á fundinum. UÍA stefnir að því í samvinnu við félögin að breyta því, en hugmynd er að svokallaður farandþjálfari verði fenginn til að rífa frjálsíþróttastarfið upp. Að svo stöddu er þó óljóst hvernig nákvamlega verði að því staðið. Að loknum fundi héldu formenn félagana yfir í Fjarðarbyggðarhöll þar sem byggingarstjóri verkefnisins tók á móti þeim og fór yfir svæið með þeim.