Víðavangshlaup UÍA og sprettsundmót UÍA
Síðastliðinn laugardag fóru fram Víðavangshlaup og Sprettsundmót UÍA á Hallormsstað og sá UMF Þristur um framkvæmd viðburðanna.
Um 30 keppendur hlupu um skóginn en boðið var uppá 1,5 km skemmtiskokk fyrir 10 ára og yngri, 3 km hlaup með tímatöku fyrir 11-14 ára, 3 km skemmtiskokk fyrir 15 ára og eldri og síðast en ekki síst 10 km hlaup fyrir 15 ára og eldri þar sem hlaupinn var krefjandi leið sem verður héðan í frá minnst sem ,,brekkuhring dauðans".
Í 3 km hlaupi 11-14 ára sigruðu Eyrún Gunnlaugsdóttir, Hetti og Jónas Bragi Hallgrímsson, Þristi og í 10 km hlaupi mæðginin Hildur Bergsdóttir og Mikael Máni Freysson, Þristi. Hlutu sigurvegararnir glæsilega skógarbikara úr tré sem þeir hagleiksmenn Baldur og Bragi Jónssynir smíðuðu af þessu tilefni. Allir þátttakendur fengu skógarviðurkenningarpening og héldu að hlaupi loknu í sundlaugarpartý í sundlauginni á Hallormsstað.
Eftir að hlauparar höfðu látið líða úr sér í lauginni var þar blásið til Sprettsundmóts UÍA en var þar keppt í stuttum vegalengdum í bak-, bringu-, skrið-, flug- og fjörsundi, í aldursflokkum 8 ára og yngri, 9-10 ára, 11-12 ára, 13-14 ára og 15-18 ára. Um 30 keppendur tóku þátt börðustu um stigaverðlaun en keppendur 11 ára og eldri söfnuðu með frammistöðu sinni í hverri grein og var stigahæsti sundmaður og -kona verðlaunuð í lok móts.
Í flokki 11-12 ára sigruðu Jóhanna Malen Skúladóttir, Þristi og Ágúst Már Þórðarson, Þristi, í flokki 13-14 ára sigruðu Nikólína Dís Kristjánsdóttir, Austra og Jónas Bragi Hallgrímsson, Þristi og í flokki 15-18 ára Bergrún Bergsdóttir, Hetti. Hlutu þau sérstakan skógarglaðning í viðurkenniningarskyni. Þegar sundmenn og -konur höfðu skolað af sér var efnt til grillveislu í skóginum og farið í leiki.
Þökkum við þátttakendum, starfsfólki og öðrum sem lögðu okkur lið fyrir frábæra samveru og skemmtileg mót.
Á myndinni hér til hliðar má sjá keppendur í flokki 10 ára og yngri rjóða og sæla eftir skokk um skóginn. Fleiri myndir frá viðburðunum má sjá hér.