Stórir sigrar í gærkvöld
Fjarðabyggð og Huginn unnu leiki sína í Visa bikar karla í gærkvöld. Fjarðabyggð sigraði Neista 7-0 á Eskifirði og Huginn sigraði Hött 5-1 á Egilsstöðum. Þessi lið eru því komin áfram og eiga því möguleika á að leika við lið úr efstu deild í næstu umferð Visa bikarsins.
Í leik Fjarðabyggðar og Neista skoraði Marjan Cekic fyrstu þrjú mörk Fjarðabyggðar á 3., 6. og 20. mínútu. Á 29. mínútu skoruðu Neista menn sjálfsmark og Goran Nikolic setti því næst mark á 61. mínútu. Það var síðan Grétar Örn Ómarsson sem skoraði síðustu tvö mörkin á 76. og 82. mínútu. Þar við sat og lokatölur 7-0.
Á Vilhjálmsvelli skoraði Kristján Guðberg Sveinsson fyrsta mark Hugins á 10. mínútu. Annað markið kom á 18. mínútu og þar var að verki Sveinbjörn Jónasson. Þá minnkaði Vilmar Freyr Sævarsson muninn fyrir Hött á 31. mínútu. Því næst setti Tómas Arnar Emilsson tvö mörk á 35. mínútu og 61. mínútu. Það var síðan Mikael Nikulásson sem rak síðasta smiðshöggið á sigur Hugins með marki á 62. mínútu, staðan 5-1.