Leikir helgarinnar
Höttur og Neisti unnu sína leiki, Fjarðabyggð gerði jafntefli og Huginn tapaði. Staða austan liðanna er samt sem áður ágæt og möguleikarnir fínir. Einnig var leikið í kvennaknattspyrnunni.
Höttur sigraði Snört 5-1 á Dúddavelli, Kópaskeri á laugardaginn. Hinn 15 ára gamli Högni Helgason skoraði 2 mörk fyrir Hött, Vilmar Freyr setti 1, Jóhann Örn 1 og Birgir Hákonarson 1. Bjarki Þór Kristinsson skoraði mark Snartar. Þetta er fyrsti sigur Hattarmanna síðan sumarið 2003 og vonandi að þetta sé til þess að rétta úr kútnum fyrir þá!
Neisti sigraði Boltafélag Húsavíkur á Djúpavogi 3-0 og var það Hallur Ásgeirsson sem skoraði öll mörk Neista. Þetta var annar leikurinn í röð sem Hallur setur þrennu.
Í 2. deild lék Fjarðabyggð við Leiftur/Dalvík í Fjarðabyggð. Jón Örvar Eiríksson kom gestunum yfir úr vítaspyrnu en undir lok leiksins náðu Fjarðabyggðarmenn að jafna þegar Leiftur/Dalvík skoraði sjálfsmark. Lokatölur 1-1.
Huginn sótti svo Selfoss heim í fyrsta heimaleik heimamanna. Fjölmenni var á vellinum eða um 350 manns, bæði Selfyssingar og Seyðfirðingar. Ingþór Jóhann Guðmundsson kom Selfoss yfir eftir um 38 mínutna leik en Huginn náði að jafna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og var Mikael Nikulásson þar að verki eftir hornspyrnu. Á 53. mínútu skoraði Ingþór Jóhann sitt annað mark og á 66. mínútu skoraði Lárus Arnar Guðmundsson þriðja mark heimamanna. Undir lok leiksins þyngdust sóknir Hugins og uppskáru þeir mark, Brynjar Gestsson skoraði með skalla á 88. mínútu. Lokatölur 3-2.
Þrír leikir fóru fram í 1. deild kvenna um heligna. Á föstudaginn tók Fjarðabyggð á móti Sindra á Eskifjarðarvelli. Sindri sigraði með þremur mörkum gegn einu. Á laugardaginn áttust Leiknir og Höttur við á Fáskrúðsfirði. Höttur sigraði 3-1 með tveimur mörkum frá Alexöndru Sveinsdóttur og einu marki frá Evu Ýr Óttarsdóttur. Mark Leiknis skoraði Una Sigríður Jónsdótir. Á sunnudag hélt Höttur svo til Akureyrar þar sem þær öttu kappi við sameiginlegt lið Þór/KA/KS. Leikar fóru 6-0 fyrir norðanstúlkur.