Dagur íslenskrar náttúru
Í tilefni af degi íslenskrar náttúru á morgun, þriðjudaginn 16. september, mun Brynja Davíðsdóttir, umhverfis- og náttúrufræðingur og landvörður að Teigarhorni, taka á móti gestum kl. 16:00 og sýna safn geislasteina á Teigarhorni auk þess að fræða gesti um fjölþætt starf landvarðar á hinu friðlýsta svæði. Í framhaldi verður farið í gönguferð þar sem fyrirhugaður göngustígur verður lagður um nærsvæðið og um leið sagt frá því helsta sem fyrir augu ber er varðar fjölbreyttar náttúru- og menningarminjar á Teigarhorni.
Íbúar á Austurlandi og aðrir áhugasamir eru hér með eindregið hvattir til að heimsækja Teigarhorn á þessum degi og upplifa á fræðandi hátt eina af okkar helstu náttúruperlum á svæðinu.