Sigur og tap gegn HK á heimavelli

Þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki segir leikmenn liðsins hafa gert of mikið af mistökum í leikjum þess gegn HK sem haldnir voru síðustu helgina í febrúar. Liðin mættust tvívegis í Neskaupstað og unnu sinn leikinn hvort.

Fyrri leikurinn átti upphaflega að vera á föstudagskvöldi en var frestað um sólarhring þar sem lið HK og nokkrir leikmenn Þróttar komust ekki á Norðfjörð vegna ófærðar. Seinni leikurinn frestaðist einnig frá laugardegi til sunnudags.

Þróttur vann fyrri leikinn eftir oddahrinu. HK vann fyrstu tvær hrinurnar 19-25 og 23-25 en Þróttur svaraði 25-12, 25-13 og 15-7. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir skoraði 21 stig fyrir Þrótt og Erla Rán Eiríksdóttir ellefu.

Matthías Haraldsson, þjálfari Þróttar segir leikmenn liðsins hafa sýnt karakter með að snúa leiknum sér í vil í erfiðri stöðu en hafi grafið sína eigin gröf fram að því með of mörgum mistökunum.

„Í fyrstu tveimur hrinunum gerðum við of mikið af persónulegum mistökum sérstaklega í smassi og uppgjöfum. Eftir að við náðum að laga þetta og fækka mistökunum spilaði liðið eitt það besta blak sem það hefur gert í vetur og vannst mjög sætur 3-2 sigur eftir að hafa verið 2-0 undir í hrinum. Liðið sýndi mikinn karakter að koma tilbaka og vinna síðustu 3 hrinurnar með jafn afgerandi hætti og raun bar vitni."

Á sunnudeginum skiptust liðin á að vinna hrinur. HK vann þá fyrstu 19-25, Þróttur þá aðra 25-21, HK þá þriðju 23-25, Þróttur fjórðu 28-26 og HK oddahrinuna 11-15. Jóna Guðlaug var aftur stigahæst Þróttarstúlkna með 22 stig.

Matthías segir seinni leikinn hafa spilast sviðað og þann fyrri. „Það mislukkuðust hjá okkur uppgjafir á slæmum tímum og á löngum köflum eigum við erfitt með að koma boltanum í gólfið hjá HK þótt við tökum vel á móti honum. HK stillir upp góðri blokk og spilar góða vörn, þannig að það þarf að hafa fyrir hverju stigi.

Liðið sýndi aftur mikinn styrk með að koma til baka í fjórðu hrinu og stela sigrinum eftir að hafa verið undir lengst af í henni. Við virtumst með sigurinn í höndunum í stöðunni 7-2 í oddahrinunni en HK jafnar í 11-11 og skorar svo þrjú stig beint úr uppgjöf.

Það má taka mjög margt jákvætt úr þessum tveimur leikjum og liðið hafði mjög gott af því að spila tvo jafna fimm hrinu leiki. Okkar helsta verkefni núna er að finna meiri stöðuleika og spila vel í lengri tíma í einu. Það eru alltof miklar sveiflur í þessu og við gerum of mörg einstaklingsmistök."

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ