UÍA eignaðist Íslandsmeistara í langstökki
Steingrímur Örn Þorsteinsson úr UÍA varð um helgina Íslandsmeistari í langstökki innanhúss í flokki 14 ára pilta. Fleiri keppendur sambandsins náðu góðum árangri á Meistaramóti Íslands. Hamar stöðvaði sigurgöngu körfuknattleiksliðs Hattar, Leiknir varð í þriðja sæti Kjarnafæðismótsins og Þróttur tapaði fyrir toppliði HK í úrvalsdeild karla í blaki.Steingrímur Örn sigraði í langstökki 14 ára pilta með stökki upp á 5,18 metra og stökk 16 sentímetrum lengra en næsti maður. Þá varð Steingrímur einnig í öðru sæti í 60 metra hlaupi á tímanum 8,03 sek. Tveir UÍA menn komust á verðlaunapall í hástökki. Daði Þór Jóhannsson varð annar og stökk yfir 1,51 metra en Steingrímur þriðji með stökk upp á 1,46. Meistaramót Íslands fór fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um helgina. Að auki kepptu þau Eva María Thorarensen og Almar Aðalsteinsson frá UÍA.
Leiknir Fáskrúðsfirði tryggði sér þriðja sætið í Kjarnafæðismótinu með 3-0 sigri á KA á laugardag. Kristófer Páll Viðarsson, Hilmar Freyr Bjartþórsson og László Szilágyi skoruðu mörkin.
Eftir þrjá sigurleiki í fyrstu deild karla í körfuknattleik í röð tapaði Höttur 98-76 fyrir Hamri í Hveragerði á föstudagskvöld. Höttur var yfir fyrstu mínútur leiksins en eftir þær tóku Hamars menn örugga forustu og voru á köflum með 20 stiga forskot. Austin Bracey og Gerald Robinson skoruðu 23 stig hvor fyrir Hött.
Blaklið Þróttar tapaði báðum leikjum sínum gegn toppliði HK í Mikasa-deild karla. HK vann fyrri leikinn á föstudagskvöld 3-0; 25-19, 25-12 og 25-20. Seinni leikurinn fór á svipaðan veg, 3-0 og í hrinum 25-11, 25-23 og 25-13. Hlöðver Hlöðversson var stigahæstur Þróttara í báðum leikjunum.
Daði og Steingrímur á verðlaunapalli eftir hástökkið. Mynd: Lovísa Hreinsdóttir