Ekki rétt farið að þegar leikmenn Fjarðabyggðar voru látnir sitja eftir

Farið hefur verið yfir verklag hjá Flugfélagi Íslands eftir að leikmenn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar voru látnir sitja við brottför vélar félagsins frá Reykjavík síðasta vor. Ferðakostnaður austfirskra íþróttafélaga var yfir fjörutíu milljónir í fyrra.

„Þetta var ekki góð leið sem við vorum en við lærðum á þessu,“ sagði Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, á opnum fundi um flugmál á Egilsstöðum á föstudag.

Fimm leikmenn Fjarðabyggðar og þjálfarinn voru látnir sitja eftir þegar flugvél Flugfélagsins flaug austur til Egilsstaða í apríl í fyrra. Þeir áttu bókað á ÍSÍ-fargjaldi en vélin var of þung fyrir flugtak og var farin sú leið að þeir sem voru á afsláttarfargjaldinu voru skildir eftir.

„Það gerist ekki oft að menn þurfi að sitja heima því vélin er of þung en ferlið á að vera að leita eftir sjálfboðaliðum sem eru til í að fara síðar,“ sagði Árni.

UÍA og aðildarfélög þess sendu inn umsóknir upp á tæpar 43 milljónir króna í ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar fyrir síðasta ár. Eftir er að yfirfara tölurnar og meta hvað telst styrkhæft samkvæmt reglum sjóðsins. Ljóst er þó að stór hluti kostnaðarins eru flugfargjöld.

Flugfélag Íslands og ÍSÍ eru með samning um sérstök fargjöld fyrir íþróttahreyfinguna. Samkvæmt honum skuldbindur hreyfingin sig til að kaupa að kaupa að minnsta kosti 4500 sæti á tímabilinu.

Innan hreyfingarinnar hafa menn þó gagnrýnt að ekki sé alltaf hægt að stóla á að fargjöldin séu í boði. „Við bjóðum ákveðinn fjölda sæta í hverri ferð. Það er misjafnt eftir bókunarþróun hvað er í boði á ÍSÍ-fargjaldi og það kemur fram í mismunandi niðurstöðum eftir því hvenær menn bóka.“

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ