Tveir keppendur UÍA á palli á Meistaramóti í frjálsum
Tveir keppendur UÍA komust á verðlaunapall á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 15-22ja ára sem haldið var um síðustu helgi. Blak og körfubolti eru ofarlega á lista austfirskra íþróttamanna um helgina.
Helga Jóna Svansdóttir varð þriðja í 60 metra hlaupi á tímanum 9,95 sek., en hún var einnig þriðja í undanrásum. Mikael Máni Freysson varð annar í 1500 metra hlaupi á tímanum 5:19,60
Sambandið sendi alls sjö keppendur til þátttöku og segist Sandra María Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri UÍA sem var fararstjóri um helgina, afar sátt við árangur keppendanna.
Árangurinn hefði mögulega orðið enn betri en hluti keppenda missti af fyrri keppnisdeginum því þeir komust ekki á keppnisstað þar sem ekki var fært með flugi í sólarhring frá föstudegi til laugardag. Þá varð einnig töf á því að hópurinn kæmist heim af sömu sökum. Keppni lauk síðdegis á sunnudag en hópurinn komst ekki austur á ný fyrr en í hádeginu á þriðjudag.
Höttur tekur í kvöld á móti Breiðabliki í fyrstu deild karla í körfuknattleik klukkan 18:30. Liðin eru jöfn í 3. – 5. sæti deildarinnar með tíu stig.
Þróttur hefur keppni í úrvalsdeild karla í blaki á ný eftir jólafrí með tveimur leikjum gegn Þrótti Reykjavík í höfuðborginni. Fyrri leikurinn verður klukkan 20:00 í kvöld en sá seinni á hádegi á morgun. Leikið er í íþróttahúsi Kennaraháskólans.