Eysteinn Bjarni Ævarsson íþróttamaður Hattar 2013
Körfuknattleiksmaðurinn Eysteinn Bjarni Ævarsson var í gærkvöldi útnefndur íþróttamaður Hattar fyrir árið 2013 á þrettándagleði félagsins. Félagið stendur fyrir gleðinni á Egilsstöðum í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshérað. Við það tilefni eru íþróttamenn ársins og fleiri velunnarar félagsins verðlaunaðir.Eysteinn er 18 ára og hefur verið fastamaður í meistaraflokksliði Hattar síðustu tvö keppnistímabil. Hann var í vor valinn í tólf manna hóp U-18 ára landsliðsins sem tók þátt í Norðurlandamótinu í Svíþjóð.
Eysteinn var þar í byrjunarliðinu í þremur leikjum af fimm en liðið varð í öðru sæti á mótinu eftir fjóra sigurleiki. Eysteinn á einnig að baki leiki með U-15 og U-16 ára landsliðum Íslands.
Sigurjón Bjarnason og Helga Alfreðsdóttir fengu starfsmerki félagsins fyrir vinnu sína fyrir það og forvera þess á árunum 1970-1990.
Höttur fagnar fjörutíu ára afmæli sínu síðar á árinu. Í máli formanns þess, Davíðs Þórs Sigurðarsonar, kom fram að undirbúningur fyrir það væri þegar hafinn en stefnt er að því að tvinna slík hátíðahöld inn í héraðshátíðina Ormsteiti í ágúst.
Sjö deildir eru starfandi innan Hattar og fengu íþróttamenn þeirra viðurkenningar sínar í gærkvöldi.
Blak: Elínborg Valdsdóttir
Fimleikar: Rebekka Karlsdóttir
Frjálsíþróttir: Hrefna Ösp Heimisdóttir
Knattspyrna: Högni Helgason
Körfubolti: Eysteinn Bjarni Ævarsson
Handbolti: Maron Brynjar Árnason
Taekwondo: Þuríður Nótt Björgvinsdóttir