Snæfell 2013 komið út
Nýjasta tölublaði Snæfells var dreift til Austfirðinga í síðustu viku. Þar er farið yfir árið hjá UÍA í máli og myndum. Aðalviðtal blaðsins er við Sigurð Haraldsson, Leikni Fáskrúðsfirði, sem keppir í frjálsum íþróttum á alþjóðavettvangi.
Sigurður Haraldsson er margfaldur Íslands-, Norðurlanda-, Evrópu- og heimsmeistari í frjálsíþróttum. Hann byrjaði ekki keppnisferil sinn á alþjóðavettvangi fyrr en eftir sjötugt og þá eftir fjörtíu ára hlé frá íþróttaiðkun. Snæfell ræddi við hann um uppeldið á Fáskrúðsfirði, verðlaunasöfnun á stórmótum og harða samkeppni á öldungamótum.
Af öðru efni má nefna viðtal við Þorbjörgu Ólöfu Jónsdóttur, íþróttamann UÍA árið 2012 en Þorbjörg hefur árum saman verið máttarstólpi í liði Þróttar og varð Íslands- og deildarmeistari með Þrótti í vor og fór með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikana í Lúxemborg.