Bikarmeistarar Stjörnunnar unnu Hött í körfuknattleik í gærkvöldi
Bikarmeistarar Stjörnunnar tryggðu sér í gærkvöldi sæti í 16 liða úrslitum í bikarkeppni karla í körfuknattleik eftir 59-86 sigur á Hetti en liðin mættust á Egilsstöðum. Matthew Hairston átti stjörnuleik fyrir Stjörnuna en hann lék sinn fyrsta leik með liðinu.
Stjörnumenn eru deild ofar en Höttur og mátti því fyrirfram búast við sigri þeirra. Augu flestra beindust að Bandaríkjamanninum Matthew Hairston sem fékk leikheimild með Stjörnunni fyrr í dag. Hann byrjaði á varamannabekknum en kom inn á eftir tæpar tvær mínútur þegar Fannar Freyr Helgason meiddist á ökkla.
Ekkert stig hafði verið skorað þegar Hairston kom inn á en innkoma hans gjörbreytti leiknum. Hann byrjaði á stoðsendingu, varði svo tvö skot frá Hattarmönnum og skoraði næstu fimm stig sjálfur. Á einni mínútu var staðan orðin 0-10. Sá munur hélst út leikhlutann sem endaði 11-20.
Snemma í öðrum leikhluta fór Hairston af velli og hvíldi sig í tvær mínútur. Það nýttu Hattarmenn sér og breyttu stöðunni úr 13-25 í 22-25. Þriggja stiga skot þeirra fóru loks ofan í körfuna og áhorfendur, sem hafa sjaldan verið fleiri á Hattarleik en í kvöld, tóku vel við sér.
Höttur var áfram inni í leiknum fyrst eftir að Hairston kom inn aftur en fljótlega dró aftur í sundur með liðunum og Stjarnan fór með væna forustu, 27-43 inn í leikhléið.
Stjarnan skoraði fyrstu tíu stigin í seinni hálfleik líkt og í þeim fyrri. Hattarmenn svöruðu fyrir sig og áttu nokkra góða kafla en Stjarnan var ávallt með örugg tök á leiknum. Frisco skemmti áhorfendum með tveimur laglegum troðslum.
Sú fyrri var sérdeilis skemmtileg en þá hljóp hann á fullri ferð á Hairston í vörninni og tróð yfir hann. Hreinn Gunnar Birgisson átti líka eftirminnilegt augnablik á lokasekúndu þriðja leikhluta þegar hann skoraði sín fyrstu stig í leiknum með skoti frá miðju og lagaði stöðuna í 51-68.
Þá var hins vegar orðið ljóst að bikarmeistararnir væru sigurvegarar kvöldsins og hvíldu því lykilmenn. Hjá Hetti fengu yngri leikmenn tækifæri síðustu mínúturnar.
Frisco Sandidge var stigahæstur í lið Hattar í kvöld með 24 stig en Austin Bracey skoraði 15 og Andrés Kristleifsson 12.
Matthew Hairston skoraði 25 stig fyrir Stjörnuna og tók 13 fráköst. Marvin Valdimarsson skoraði 24 stig og stal boltanum fimm sinnum. Justin Shouse skoraði 14 stig, líkt og Dagur Kár Jónsson og gaf tíu stoðsendingar.