48. sambandsþing UMFÍ var haldið helgina 12. - 13. október

48. sambandsþing Ungmennafélag Íslands var haldið helgina 12. - 13. október þar sem að yfir 140 fulltrúar sóttu þingið.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir var endurkjörin sem formaður UMFí en auk Helgu Guðrúnar í kosningu til formanns var Stefán Skafti Steinólfsson í framboði. Helga Guðrún hefur verið formaður síðan 2007.

Á þinginu fór líka fram kosning í stjórn UMFÍ. Rétt kjörnir einstaklingar í aðalstjórn UMFí eru: Hrönn Jónsdóttir, Björg Jakobsdóttir, Gunnar Gunnarsson, Haukur Valtýsson, Helga Jóhannesdóttir og Örn Guðnason.

Rétt kjörnir einstaklingar í varastjórn eru: Ragnheiður Högnadóttir, Baldur Daníelsson, Kristinn Óskar Grétuson og Eyrún Harpa Hlynsdóttir.

„Við teljum það mikilvægt að Austfirðingar eigi á ný fulltrúa í stjórn UMFÍ. Við höfum lengi tekið virkan þátt í starfi félagsins og lagt áherslu á að taka jafnframt á okkur ábyrgð þar með stjórnarsetu. Á þinginu virtust menn almennt tala um að horfa til framtíðar. Á því þarf hreyfingin að halda. Það er ekkert leyndarmál að síðustu ár hafa verið róstursöm og mikil orka farið í erfið mál. Vandamálið hefur hins vegar falist í að argast í þeim aftur og aftur með sömu niðurstöðunni í stað þess að geta sætt sig við orðinn hlut og halda áfram. Við höfum staði í miklum breytingum og þróun á UÍA undanfarin fimm ár og trúum því að sú reynsla nýtist UMFÍ vel,“ segir Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA. 

Myndin hér til hliðar er fengin af heimasíðu UMFÍ og er af nýkjörinni stjórn hreyfingarinnar.
Efri röð frá vinstri: Kristinn Óskar Grétuson, Haukur Valtýsson, Gunnar Gunnarsson, Örn Guðnason og Sæmundur Runólfsson framkvæmdastjóri. Neðri röð frá vinstri: Hrönn Jónsdóttir, Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður, Björg Jakobsdóttir og Ragnheiður Högnadóttir. Á myndina vantar Helgu Jóhannesdóttir, Baldur Daníelsson og Eyrúnu Hörpu Hlynsdóttir.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ