Máni hampaði Launaflsbikarnum eftir framlengdan úrslitaleik

UMF Máni úr Nesjum í Hornafirði fór með sigur af hólmi í bikarkeppni UÍA og Launafls í knattspyrnu eftir 5-4 sigur á Spyrni í framlengdum úrslitaleik á Djúpavogi í gær. Félagið hefur ekki áður unnið bikarinn.

Leikurinn byrjaði fjörlega því Benedikt Jónsson kom Spyrnismönnum yfir strax á sjöttu mínútu eftir að Mánamönnum mistókst að hreinsa fyrirgjöf í burtu. Hallmar Hallsson jafnaði hins vegar fimm mínútum síðar eftir álíka vandræði í vörn Spyrnis.

Spyrnismenn tóku aftur forustuna á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Jóhann Klausen tók fasta aukaspyrnu frá vinstri beint inn að markinu. Það olli miklum vandræðum í vörn Mána sem lauk með því að Spyrnismaðurinn Ástráður Ási Magnússon kom aðvífandi og sendi boltann í netið.

Tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Mánamenn jöfnuðu aftur. Þar var á ferðinni Örvar Hugason með öruggri vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Björgvin Jónsson felldi hann í vítateignum.

Mánamenn virtust ætla láta kné fylgja kviði því níu mínútum síðar kom markamaskínan Ingi Steinn Þorsteinsson þeim yfir eftir að hafa prjónað sig í gegnum vörnina. Á þessum kafla virtust Mánamenn vera með leikinn í höndum sér. Þeir mættu fleiri til leiks og nýttu sér það til að skipta inn á og voru þar með óþreyttari leikmenn.

Á sama tíma virtist draga af Spyrnismönnum sem aðeins mættu þrettán til leiks. Jóhann Klausen, sem hvílt hafði fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik, kom aftur inn og við það breyttist leikurinn. Hraði hans og leikni á vinstri kantinum olli Mánamönnum ávallt vandræðum. Eftir eina slíka sókn barst boltinn inn á teiginn á Andra Bergmann. Varnarmaðurinn Ólafur Albert Sævarsson greip til þess að stöðva hann með tæklingu en felldi Andra áður en hann snerti boltann og því dæmd vítaspyrna.

Arnar Jóel Rúnarsson, markahæsti maður Spyrnis í sumar, stillti boltanum upp á vítapunktinn og skoraði af öryggi þegar hann sendi Jóhann Berg Kiesel í vitlaust horn.

Eftir barning í 81 mínútu var farið að draga af leikmönnum og þeir höfðu ekki kraft til að skora úrslitamarkið áður en flautað var til loka venjulegs leiktíma. Ekki var orðið við bónum leikmanna um að stytta leiktíma í framlengingu eða fara beint í vítaspyrnukeppni heldur leikin framlenging í 2x15 mínútur.

Eflaust voru einhverjir í huganum farnir að búa sig undir vítaspyrnukeppni enda þurfti að grípa til þess úrræðis í úrslitum Launaflsbikarsins árin 2010 og 2011. Í seinna skiptið voru Hornfirðingar, þá undir merkjum Knattspyrnuakademíu Hornafjarðar, í úrslitum en töpuðu gegn Boltafélagi Norðfjarðar.

Þeir voru hins vegar eigin gæfu smiðir að þessu sinni og nýttu sér hálftímann til að gera út um leikinn þar sem Sindri Örn Elvarsson var hetja þeirra og skoraði tvö mörk.

Fyrra markið kom á 94. mínútu eftir aukaspyrnu frá vinstri þar sem boltinn hrökk af Sindra í netið að lokum. Spyrnismenn mótmæltu og töldu Sindra hafa verið rangstæðan en á það var ekki fallist. Spyrnismenn voru hins vegar snöggir að jafna sig eftir áfallið, brunuðu í sókn og jöfnuðu mínútu síðar með fallegu skoti Arnars Jóels úr teignum.

Mánamenn höfðu hins vegar síðasta orðið á 109. mínútu þegar Sindri Örn prjónaði sig í gegnum vörn Spyrnis og hamraði boltann niður í fjærhornið. Spyrnismenn sóttu nokkuð síðustu mínúturnar en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Sjö lið hófu leik í Launaflsbikarnum í ár og léku einfalda umferð í deild. Máni fékk þar flest stig en Spyrnir var í þriðja sæti. Spyrnir tryggði sér hins vegar sæti í úrslitum með því að vinna UMFB í undanúrslitum á Borgarfirði á meðan Máni sló út ríkjandi meistara frá Norðfirði sem enduðu í fjórða sæti.

Arnar Jóel Rúnarsson, Spyrni, var valinn besti leikmaður keppninnar í kjöri fyrirliða þátttökufélaganna. Ingi Steinn Þorsteinsson, Mána, fékk viðurkenningu sem markahæsti leikmaðurinn en hann skoraði fjórtán mörk í sumar.

Leikskýrsla úrslitaleiksins.

Upplýsingar um Launaflsbikarinn 2013.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ