Tveir Íslandsmeistarar í frjálsum

UÍA eignaðist um helgina tvo Íslandsmeistara í frjálsíþróttum þegar Meistaramóti Íslands 15-22ja ára var haldið á Kópavogsvelli. Tveir keppendur UÍA komust einnig inn í úrvalshóp FRÍ.

Hrefna Ösp Heimisdóttir varð Íslandsmeistari í 400 metra hlaupi á tímanum 1:04,04 mín og önnur í 800 metra hlaupi á tímanum 2:35,75 mín.

Mikael Máni Freysson sigraði í 300 metra grindahlaupi á tímanum 43,58 sek. En hann náði einnig í silfur í 400 metra hlaupi á 57,07 sek. og hástökki með stökki upp á 1,68 metra. Sigurvegarinn stökk jafn hátt en notaði til þess færrri tilraunir.

Með 300 metra hlaupinu komst hann inn í úrvalshóp FRÍ líkt og Atli Pálmar Snorrason sem varð annar í hlaupinu, tæpri sekúndu á eftir. Atli Pálmar vann einnig til bronsverðlauna í hástökki með að stökkva 1,68 metra og 800 metra hlaupi á tímanum 44,43 sek.

Þá varð Helga Jóna Svansdóttir þriðja í 100 metra hlaupi á 13,52 sekúndum og Atli Geir Sverrisson annar í sleggjukasti með kasti upp á 35,80 metra. Þau keppa öll í flokki 15 ára.

Bróðir Atla, Daði Fannar, tryggði sér silfurverðlaun í kringlukasti pilta 16-17 ára þegar hann kastaði 36,81 metra og í sleggjukasti með kasti uppi á 48,24 metra. Þá hlaut hann bronsverðlaun í spjótkasti og kúluvarpi með köstum upp á 57,16 og 12,77 metra.

„Við vöktum athygli annara þjálfara fyrir hversu flotta krakka við eigum. Allir sammála um hvað það sé gaman að sjá að UÍA er að koma sterkt inn aftur,“ segir Lovísa Hreinsdóttir, frjálsíþróttaþjálfari sem fylgdi hópnum.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ