Skráning hafin á Unglingalandsmótið á Höfn
Búið er að opna fyrir skráningar á Unglingalandsmót UMFÍ sem að þessu sinni fer fram á Höfn í Hornafirði 2. - 4. ágúst. Skráningafrestur er til 27. júlí. Skráningargjaldið er 6.000 krónur, óháð greinafjölda.
Keppnisgreinar á mótinu verða fimleikar, frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, motocross, skák, stafsetning, sund, strandblak og upplestur.
Við hvetjum fólk til að nota nafn UÍA á þau lið sem skráð eru til leiks af Austurlandi. Það gerir okkur auðveldara fyrir að fylgjast hvert með öðru og hvetja áfram.
Austfirðingar hafa fjölmennt á síðustu tvö unglingalandsmót en um níutíu keppendur tóku þátt undir merkjum UÍA á Selfossi í fyrra. Staðsetning mótsins að þessu sinni er nánast eins hentug og hún getur orðið fyrir íbúa fjórðungsins.
Þátttökurétt í keppni á mótinu hafa allir á aldrinum 11-18 ára en að auki er í boði fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna.
Mótssetning verður á Sindravelli klukkan 20:00 föstudagskvöldið 2. ágúst. Keppendur UÍA ganga þar fylktu liði inn á völlinn merktir sambandinu. Þeir sem vilja panta UÍA galla fyrir mótið er bent á að hafa samband við skrifstofu UÍA í vikunni í síma 471-1353 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Tjaldbúðastjóri UÍA í ár verður Snorri Benediktsson. Starfsmenn UÍA verða á svæðinu um mótshelgina til stuðnings við þátttakendur sambandsins.
Öll skráning fer fram í gegnum skraning.umfi.is en allar nánari upplýsingar um mótsins fást á www.ulm.is.