Glæsileg afmælisveisla í tilefni 100 ára afmælis Hugins: Myndir

Seyðfirðingar og gestir þeirra fögnuðu 100 ára afmæli Íþróttafélagsins Hugins með tveggja daga hátíðahöldum um síðustu helgi.

Hátíðadagskrá var í miðbænum á föstudag. Við það tilefni var Rúnar Freyr Þórhallsson útnefndur íþróttamaður Hugins fyrir árið 2012 en hann leikur með meistaraflokki félagsins í knattspyrnu. Hann á einnig fínan feril að baki í fleiri íþróttagreinum, svo sem skíðum.

Ungmennafélag Íslands afhenti Ingibjörgu Svanbergsdóttur starfsmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og Þorvaldur Jóhannsson hlaut gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Þorvaldur var einmitt kynnir á hátíðinni á föstudag auk þess sem hann var formaður ritnefndar sem gaf út glæsilegt afmælisblað.

Arnbjörn Sveindóttir, forseti bæjarstjórnar, flutti kveðju frá bæjarstjórninni og afhenti félaginu styrk upp á eina milljón króna.

Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, færði Jóhönnu Pálsdóttur, formanni Hugins, 100 ára sögu ÍSÍ að gjöf en bókin kom út í fyrra. Þá mætti Sprettur Sporlangi á svæðið við miklar vinsældir.

Hátíðahöldin héldu áfram á laugardag. Um morguninn var á dagskránni táknrænn gjörningur þar sem byrjað var að sprengja fyrir göngum undir Fjarðarheiði.

Í grunnskólanum var sýning á munum úr sögu félagsins og myndasýning sem aðgengileg er hér á YouTube.

Þá tók liðið á móti Leikni Fáskrúðsfirði í þriðju deild karla í knattspyrnu og vann 3-1. Með því komst liðið í efsta sæti deildarinnar um stundarsakir.

Um kvöldið var síðan hátíðarkvöldverður og skemmtun í Herðubreið sem um 500 manns sóttu.

Myndir frá föstudegi.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ