Þorvaldur Jóhannsson sæmdur Gullmerki ÍSÍ
Þorvaldur Jóhannsson hlaut gullmerki Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á föstudag þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Hugins. Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, afhenti honum merkið.
Þorvaldur var um áratuga skeið forsvarsmaður skíðamála hjá Huginn en hann hefur alla tíð verið íþróttaiðkandi og stundaði sjálfur fjölmargar greinar. Í seinni tíð hefur aðaláhersla hans verið á skíði og golf.
Þorvaldur var formaður Hugins frá 1968 til 1971. Hann hefur beitt sér mikið fyrir uppbyggingu íþróttaaðstöðu á Seyðisfirði og komið með margvíslegum hætti að íþróttastarfinu sem íþróttakennari, íþróttaforystumaður og bæjarstjóri. Þar má nefna skíðaastöðu í samvinnu við Héraðsmenn, byggingu nýs íþróttahúss og endurbætur á knattspyrnuvellinum.
Nú síðast var Þorvaldur formaður ritnefndar glæsilegs afmælisrits Hugins og kynnir á hátíðardagskrár á föstudaginn en hann kom þar íklæddur Huginstreyju.