Frjálsíþróttaskólinn 2013: Dagur 2
Dagurinn byrjaði klukkan hálf tíu með æfingu á Vilhjálmsvelli. Elín Rán Björnsdóttir leiðbeindi þar um þrístökk og Eva Ýr Óttarsdóttir um spretthlaup. Í þrístökkinu voru æfðir vöðvar sem ekki eru alltaf í notkun en Eva kenndi krökkunum að vera alltaf viðbúin að taka á rás.
Eftir hádegismat var komið að ítarlegri grindahlaupsæfingu undir stjórn Lovísu Hreinsdóttur. Margir krakkanna höfðu litla reynslu af grindahlaupi og því nauðsynlegt að fara vel yfir tækniatriðin.
Eftir kaffi var haldið norður í Fellabæ með strætó og farið í létta gönguferð á golfvöllinn. Þar tók golfkennarinn Guðmundur Rúnar Einarsson á móti hópnum og ýmist kenndi þeim sem ekki höfðu áður prófað golf grunnatriðin eða hjálpaði öðrum til að laga sveifluna.
Æfingarnar tóku vel á og eftir kvöldmat lögðust menn niður og horfðu á gamanmyndir fyrir svefninn.