Frjálsíþróttaskólinn 2013: Dagur 1
Frjálsíþróttaskólinn 2013 var formlega settur mánudaginn 10. júní. Til leiks mættu fimmtán krakkar, víðsvegar af Austurlandi en flestir koma úr Neskaupstað.
Sú breyting hefur orðið á skólanum milli ára að Sandra María Ásgeirsdóttir stýrir skólanum í ár en Hildur Bergsdóttir er í fríi. Margir aðrir fastagestir eru kunnuglegir, þeirra þekktust Didda sem eldað hefur ofan í mannskapinn árum saman.
Eftir að hópurinn hafði komið sér fyrir í Ný-ung var haldið upp á Vilhjálmsvöll þar sem farið var í leiki til að hrista hópinn saman.
Eftir kaffi var fyrsta greinarkynninginn en Mikki úr tennis- og badmintondeild Hattar kom og kenndi krökkunum grunn handtökin í tennis.
Reyðfirðingurinn Anna Katrín Svavarsdóttir var gestaþjálfari á fyrstu alvöru frjálsíþróttaæfingunni. Hún kenndi krökkunum hástökk en Sandra María þjálfaði kúluvarp.
Anna Katrín ætlaði að hafa létta keppni í hástökki en það endaði í mjög harðri keppni sem tafði komu þeirra sem lengst komust í kvöldmatinn.