Sendinefnd UMFÍ skoðaði aðstæður í Neskaupstað
Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Íslands og Helga Guðjónsdóttir, formaður, heimsóttu Neskaupstað á mánudag og skoðuðu aðstæður þar vegna mögulega Landsmóts 50 ára og eldri árið 2015. Neskaupstaður er einn þriggja staða sem koma til greina sem mótsstaðir það ár.
Farið var yfir umsóknir um mótið á síðasta stjórnarfundi UMFÍ og ákveðið að skoða valda staði nánar. Neskaupstaður var einn þeirra.
Sæmundur og Helga fengu dýrindis veður í Neskaupstað þar sem þau nutu leiðsagnar Stefáns Más Guðmundssonar, formanns Þróttar og Þórodds Seljan, fræðslustjóra Fjarðabyggðar. Helstu íþróttasvæði voru heimsótt: gervigrasvöllurinn, íþróttahúsið, sundlaugin og eins möguleg tjaldsvæði.
Hópurinn fékk höfðinglegar mótttökur á Grænanesvelli, félagssvæði Golfklúbbs Norðfjarðar og renndi einnig upp að Dalahöllinni, sem hestamannafélagið Blærrekur, þar sem miklar framkvæmdir eru í gangi.
Landsmót 50+ verður haldið í Vík í Mýrdal um helgina og að ári verður það á Húsavík.