Drengjalið Hattar deildarmeistari í fimleikum
Drengjalið Hattar fagnaði sigri í sinni deild í vetur og fyrsta sætinu á vormóti Fimleikasambands Íslands (FSÍ) sem fram fór á Selfossi um helgina en það var hið síðasta í leppnisröð FSÍ.
Fimleikadeild Hattar sendi 50 keppendur í sex liðum en um 740 keppendur sóttu mótið.Keppnishelgin byrjaði á því að allir iðkendur í þriðja flokk fóru í fimleikahús Stjörnunnar og æfðu vel. „Vakti æfingin mikla gleði en jafnframt var mikið spjallað, hvers vegna slík aðstaða væri ekki til staðar á Egilsstöðum,“ segir Auður Vala Gunnarsdóttir, yfir þjálfari.
„Margar skemmtilegar tillögur komu fram um hvernig ætti að fjárafla fyrir slíkri aðstöðu. Það vantar ekki eldmóðinn !
Veturinn er búinn að vera skemmtilegur og fimleikadeild Hattar átt góðan keppnisvetur. Við þjálfarar notið samveru margra yndislegra iðkenda sem við eigum eflaust eftir að fá að njóta áfram.“
Úrslit vormótsins:
3. flokkur 11-12 ára
Höttur kvk A 6. sæti
Höttur kvk B 17. sæti
Höttur drengir 1. sæti - deildarmeistarar
2. flokkur 13-15 ára
Höttur kvk 9. sæti
Höttur mix 1. sæti
Opinn flokkur - 15 ára og eldri
Höttur kvk 2. sæti