Gott gengi hjá Stafdalsfólki á Andrésar Andar-leikunum
Fjölmennur hópur fór úr Skíðafélaginu í Stafdal á Andrésar Andarleika á skíðum sem fram fóru í Hlíðarfjalli við Akureyri. Alls komu sautján verðlaun heim, þar af þrír Andrésartitlar.
Skíðafélagið í Stafdal sendi 34 keppendur í alpagreinum og einn keppanda á bretti á leikana. Keppendunum fylgdu fjölmörg systkini, foreldrar og aðrir forráðamenn og samanlagt var þetta yfir 100 manna hópur.
Þess má geta að þetta er í fyrsta skipti sem SKIS á keppanda í brettaflokki en það var Ívar Andri Bjarnason sem keppti í brettastæl og brettakrossi í flokki 13-15ára.
Vegna slæmrar veðurspár fyrir laugardag var keppt þéttar og keppni lokið á föstudag. Veðrið var yndislegt seinni keppnisdaginn og aðstæður í Hlíðarfjalli með besta móti.
Andrésarmeistarar urðu Helena Lind í stórsvigi 10 ára stúlkna, Elísa Maren í svigi 10 ára og Rósey í stórsvigi 8 ára stúlkna.