Stebbi Þorleifs og Jói Tryggva sæmdir gullmerki UMFÍ

Stefán Þorleifsson og Jóhann Tryggvason voru sæmdir gullmerki Ungmennafélags Íslands á sambandsþingi UÍA sem haldið var í Neskaupstað á sunnudag.

Stefán verður 97 ára í ágúst og er enn meðal virkustu íþróttamanna í Neskaupstað. Hann er reglulega á skíðum og í golfi. Hann var formaður Þróttar og Golfklúbbs Norðfjarðar, einn af stofnfélögum golfklúbbsins og hvatamaður í byggingu sundlaugarinnar.

Hann þjálfaði á sínum tíma handbolta og fimleika og hefur eiginlega þjálfað allar aðrar greinar sem stundaðar hafa verið innan Þróttar aðrar en knattspyrnu.

Jóhann var í áraraðir – og er enn – lykilmaður í skíðastarfi Þróttar. Hann var formaður skíðadeildarinnar og skíðaráðs UÍA. Hann varð síðar formaður UÍA árin 2001-2008 og sat í varastjórn UMFÍ 2001-2009.

Jóhann er öflugur félagsmaður. Þannig hefur hann verið prímusmótor í samskiptum Þróttar og Íþróttafélags Sandavógs í Færeyjum sem er nær að vera alhliða vinabæjarsamstarf. Þá er hann einn af skipuleggjendum og hlaupurum Barðneshlaupsins.

Stefán Skafti Steinólfsson, stjórnarmaður í UMFÍ sæmdi þá félaga gullmerkinu og flutti þeim vísur sem hann orti til þeirra í tilefni afhendingarinnar.

Til Stefáns:

Öldurngurinn þykir ungur,
enn á skíðum rennir sér.
Eigi þykir á sér þungur,
fyrirmyndin okkar hér.

Til Jóhanns:

Góður drengur, ætíð glaður,
gerir vísur af og til.
Jói Tryggva, tunguhraður,
traustur skíðum gerir skil.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok