Stebbi Þorleifs og Jói Tryggva sæmdir gullmerki UMFÍ
Stefán Þorleifsson og Jóhann Tryggvason voru sæmdir gullmerki Ungmennafélags Íslands á sambandsþingi UÍA sem haldið var í Neskaupstað á sunnudag.
Stefán verður 97 ára í ágúst og er enn meðal virkustu íþróttamanna í Neskaupstað. Hann er reglulega á skíðum og í golfi. Hann var formaður Þróttar og Golfklúbbs Norðfjarðar, einn af stofnfélögum golfklúbbsins og hvatamaður í byggingu sundlaugarinnar.
Hann þjálfaði á sínum tíma handbolta og fimleika og hefur eiginlega þjálfað allar aðrar greinar sem stundaðar hafa verið innan Þróttar aðrar en knattspyrnu.
Jóhann var í áraraðir – og er enn – lykilmaður í skíðastarfi Þróttar. Hann var formaður skíðadeildarinnar og skíðaráðs UÍA. Hann varð síðar formaður UÍA árin 2001-2008 og sat í varastjórn UMFÍ 2001-2009.
Jóhann er öflugur félagsmaður. Þannig hefur hann verið prímusmótor í samskiptum Þróttar og Íþróttafélags Sandavógs í Færeyjum sem er nær að vera alhliða vinabæjarsamstarf. Þá er hann einn af skipuleggjendum og hlaupurum Barðneshlaupsins.
Stefán Skafti Steinólfsson, stjórnarmaður í UMFÍ sæmdi þá félaga gullmerkinu og flutti þeim vísur sem hann orti til þeirra í tilefni afhendingarinnar.
Til Stefáns:
Öldurngurinn þykir ungur,
enn á skíðum rennir sér.
Eigi þykir á sér þungur,
fyrirmyndin okkar hér.
Til Jóhanns:
Góður drengur, ætíð glaður,
gerir vísur af og til.
Jói Tryggva, tunguhraður,
traustur skíðum gerir skil.