Ungt fólk og lýðræði: Talið um málefnið en ekki andstæðinginn

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og fyrrverandi framkvæmdastjóri UÍA, var meðal þeirra sem ávörpuðu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem haldin var á vegum UMFÍ á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Við birtum hér ræðu Stefáns Boga nokkurn vegin eins og hann flutti hana.

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mér mikill heiður og ánægja að fá að taka hér á móti ykkur fyrir hönd sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs og bjóða ykkur öll innilega velkomin til Egilsstaða.

Það eru ekkert allir sem vita hvað Fljótsdalshérað er. Egilsstaðir er fjölmennasti þéttbýlisstaður á Austurlandi, með rúmlega 2500 íbúa, en Fljótsdalshérað er meira en bara þorpið hérna við fljótið. Það er líka Fellabær sem er hinum megin við fljótið og síðan eru það sveitirnar hérna allt í kring alveg frá Vatnajökli hérna fyrir innan okkur og út að Héraðsflóa hér að utan. Reyndar er Fljótsdalshérað stærsta sveitarfélag á Íslandi, rétt tæplega 9000 ferkílómetrar að flatarmáli. Við erum stærri en Færeyjar og Lúxemborg ef út í það er farið. Fljótsdalshérað er það sem kallað sameinað sveitarfélag. Áður fyrr voru hérna níu sjálfstæð sveitarfélög. Það var ákveðið að sameina þessi sveitarfélög í nokkrum atrennum vegna þess að meirihluti innan þeirra taldi að hagsmunum okkar væri betur borgið saman en hvert í sínu lagi. Við hefðum sameiginlega hagsmuni.

Þið eruð hingað komin til þess að tala um lýðræði og þátttöku ungs fólks í því. Lýðræði snýst í grunninn um að við höfum einhverja sameiginlega hagsmuni af því að tilheyra sömu einingunni. Það getur verið ástundað í stórum einingum, eins og ríkjum eða sveitarfélögum, en það getur líka verið hluti af starfi smærri eininga, eins og stjórnmálaflokka, íþróttafélaga eða nemendafélaga. En þó að það sé munur á heilu ríkjum og litlum félögum hvað varðar stærð, þá eru grunnlögmál lýðræðisins þau sömu og virka eins allsstaðar. Þó að í flestum tilfellum séu hagsmunir innan einingarinnar þeir sömu þá geta menn stundum verið ósammála og haft ólíka hagsmuni og lýðræðið er leiðin til þess að taka ákvarðanir um þessi mál, vega og meta hagsmuni og reyna að finna út hagsmuni heildarinnar. Stundum er það fólk sem býr á einum tilteknum stað sem hefur hagsmuni ólíka öðrum, stundum er það fólk á ólíkum aldri. Allir eiga skilið að á þá sé hlustað, því lýðræðið snýst ekki bara um hvernig þú tekur ákvörðun, með því að meirihlutinn ráði, heldur líka hvernig þú byggir undir þessa ákvörðun, hvert ferlið við hana er.

En það er ekki nóg að segja bara við viljum að það sé hlustað. Fulltrúar þessara hópa þurfa líka að vera reiðubúin til að tala. Til þess að notfæra sér hina lýðræðislegu leiðir til þess að hafa áhrif. Það er þess vegna sem ég er svo glaður að sjá ykkur hér í dag kæru ráðstefnugestir, því með því að koma hér eruð þið að segja að þið viljið vera hluti af hinu lýðræðislega kerfi. Og það er nauðsynlegt.

Ég hef alla tíð verið lýðræðissjúklingur og boðið mig fram til ýmissa starfa sem ég hef átt kost á - og merkilega oft verið kjörinn. Mig langar til að deila með ykkur nokkrum grunngildum sem koma sér vel í lýðræðislegu starfi.

- Ekki láta neinn segja ykkur hverju þið eigið eða megið hafa skoðun á. Hafið skoðun á því sem þið viljið sjálf og takið þátt í því sem þið viljið sjálf, félögum, flokkum og samtökum.

- Segið ykkar skoðun og rökstyðjið hana eins vel og þið getið.

- Farið í boltann en ekki manninn. Talið um málefnið en ekki andstæðinginn.

- Hlustið á aðra með það í huga að það getur verið að sá sem þið hlustið á hafi kannski rétt fyrir sér og þið rangt. Meltið allar nýjar upplýsingar og lærið eitthvað nýtt.

- Verið tilbúin að skipta um skoðun og aldrei halda í afstöðu bara vegna þess að það er hallærislegt að skipta eða breyta.

- Sættið ykkur við endanlega niðurstöðu meirihlutans því að næst mun meirihlutinn verða á ykkar bandi og þá viljið þið hið sama frá öðrum.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ