Tekur Þróttur við titlinum á morgun?
Þróttur getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna þegar liðið tekur á móti HK í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í Neskaupstað á morgun. Höttur mætir Hamri öðru sinni í úrslitakeppni fyrstu deildar karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld.
Þróttur er í kjörstöðu eftir sigra í fyrstu tveimur leikjunum. Þróttur vann 3-1 í hörkuleik í Neskaupstað á miðvikudagskvöld en hafði yfirburði í öðrum leiknum í Kópavogi í gærkvöldi. Leikurinn hefst klukkan 14:00.
Höttur tekur á móti Hamri á Egilsstöðum klukkan 18:30. Hamar vann fyrri leik liðanna í fyrrakvöld, 86-73. Höttur verður að vinna í kvöld til að knýja fram oddaleik í Hveragerði.