Fimm grunnskólameistarar í glímu
Grunnskóli Reyðarfjarðar eignaðist fjóra grunnskólameistara og sveit UÍA í flokki 13 og 14 ára stúlkna sigraði í Sveitaglímu Íslands 15 ára og yngri á Grunnskólamóti Íslands í glímu sem fram fór á Selfossi um helgina.
Grunnskóli Reyðarfjarðar átti tíu keppendur í mótinu sem allir stóðu sig með prýði. Fjórir þeirra náðu grunnskólameistaratitli, en það voru Bylgja Rún Ólafsdóttir í 9. bekk, Kristín Embla Guðjónsdóttir í 7. bekk, Nikólína Bóel Ólafsdóttir í 6. bekk og Fanney Ösp Guðjónsdóttir í 5. bekk.
Í sveitaglímunni sigraði síðan sveit UÍA í flokki 13 og 14 ára stúlkna eftir jafna keppni við A og B sveit HSK. Sveitina skipuðu Bjarney Jórunn Þrastardóttir, Bryndís Steinþórsdóttir, Kristín Embla Guðjónsdóttir og Rebekka Rut Svansdóttir, en þær eru allar 13 ára.