Ungt fólk og lýðræði: Ræða Spretts Sporlanga

Sprettur Sporlangi var meðal ræðumanna við setningu ráðstefnunnar Ungs fólks og lýðræðis í Valaskjálf í síðustu viku. Sprettur ræddi þar um lýðræði út frá sjónarhóli hreindýrs. Ræðan í heild sinni er hér á eftir.

Kæru manndýr!

Það er mér mikill heiður að fá fyrir hönd Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, UÍA, að bjóða ykkur velkomin hingað í Egilsstaði. Fyrir þau ykkar sem ekki þekkið mig þá heiti ég Sprettur Sporlangi og er lukkudýr UÍA.

Lýðræði er hugtak sem er almennt ekki mikið rætt í hreindýrahjörðinni minni. Vanalega hugsum við meira um næsta mosa. Það er þó ekki þar með sagt að hugtakið sé okkur fullkomlega framandi.

Í hreindýrahjörðinni, líkt og í mannhjörðinni, ríkir ákveðið stjórnskipulag. Vanalega er það eitt karldýr sem hefur stjórn yfir sinni hjörð og ber gagnvart henni ákveðnar skyldur. Sennilega er réttara að segja að einræði ríki í hjörðinni.

Engar formlegar kosningar eru hjá okkur. Við karldýrin berjumst oftast með hornunum um hver fái að ríkja yfir hjörðinni. Þó er það svo að sá sem ekki stendur við skyldur sínar gagnvart hjörðinni missir valdið yfir henni. Hjörðin treystir honum ekki lengur.

Lýðræði snýst á ákveðinn hátt um traust. Traust er ekki meðfætt eða skipað. Traust er áunnið. Sá sem hefur best í bardaganum ávinnur sér traust hjarðarinnar. Sá er eftirleiðis foringi hennar og leiðir okkur að bestu og öruggustu stöðunum.

Þátttaka, samvinna og samræður eru hornsteinar lýðræðis. Lýðræði snýst ekki bara um kosningar, að meirihlutinn ráði og hafi rétt fyrir sér.

Við lýðræðislega ákvörðun þarf að leita til mismunandi hópa. Þeir hafa ólíka sýn á hlutina, ólíkar skoðanir, ólíkar forsendur, ólíka hagsmuni. Þess vegna er mikilvægt að hlusta þegar aðrir tala.

Ég trúi því að lýðræði þurfi ekki að fara fram með slagsmálum eins og í hjörðinni minni. Enginn á að þurfa að ganga blóðugur og hornbrotinn af vígvelli. Menn – og hreindýr – eiga að geta mæst á jafnréttisgrundvelli, rætt málin sín á milli og komist að niðurstöðu sem allir geti unnt við. Að menn geti séð málin út frá sjónarhóli hvers annars.

Hefðuð þið nokkurn tíman átt von á því að hlusta á hreindýr tala um lýðræði? Hafið þið nokkru sinni hugsað út í hvernig sé að vera hreindýr? Hvað okkur finnist um bílaumferðina á Fljótsdalsheiðinni? Hvað okkur finnist um átroðning ykkar manndýranna á svæðum okkar hreindýranna? Hvað okkur finnist um tilboð á hreindýraborgum í Söluskálanum? Hvort hornin okkar endi sem verðlaunagripur uppi á vegg yfir arni veiðimannsins? Hvort við viljum yfir höfuð láta skjóta okkur og steikja? Við erum jú mikilvægur hagsmunahópur í þessu öllu saman.

Þess vegna hef ég málamiðlunartillögu. Árlega verði gefinn út veiðikvóti hreindýra á mannfólk. Árlega er leyft að veiða um 20% af okkur þannig að mér finnst sanngjarnt að við fáum að veiða 60.000 Íslendinga.

Díll?

Grín! Auðvitað eigum við bara að friða hreindýrin líka.

En það sem ég vil fá ykkur til að gera er að horfa á hlutina út frá mismunandi sjónarhornum. Að taka tilllit til fleiri en ykkar sjálfra og ykkar nánustu. Það er mikilvægt að taka þátt, segja sína skoðun og heyra álit annarra sem hafa annan bakgrunn, aðra sýn á hlutina.

Að taka þátt í lýðræðislegu ferli snýst ekki bara um að sitja á fundum í lokuðum herbergjum þar sem er ógeðslega þungt loft, svitalykt og prumpufýla.

Lýðræði snýst oft um að hámarka hamingju sem flestra. Vissulega getur leiðin stundum verið  erfið yfirferðar en ánægjan af vel unnu verki trompar þreytuna. Og það er mest gaman þegar fullt af skemmtilegu fólki er með í ferðinni.

Að vera lýðræðislegur þýðir meðal annars að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum, fyrir nýjum sjónarhornum, fyrir nýjum upplýsingum. Að geta unnið með öðrum.

Ég vona að þið upplifið allt þetta hér á Egilsstöðum næstu tvo dagana. Að þið hittið nýtt fólk. Eignist nýja vini. Upplifið eitthvað nýtt.

Ég veðja að minnsta kosti á að þið hafið aldrei áður heyrt talandi hreindýr.

Takk fyrir!

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok