Glæsilegt Ístölt um helgina

 

Ístölt Austurland 2013 fór fram í blíðskaparveðri á Móavatni við Tjarnarland um helgina. Þar fóru verðurguðirnir á kostum og göldruðu fram þessa brakandi blíðu, og gerðu daginn eftirminnilegan. Fáir útiviðburðir verða betri en veðrið þann daginn.

Það má segja að Austfirðingurinn Hans Kjerúlf hafi átt Ístölt Austurland skuldlaust í gær. Hann gerði nokkuð sem enginn hefur gert áður í 10 ára sögu mótsins og vann allar þrjár höfuðgreinar ístöltsins, þ.e. A-flokk, B-flokk og tölt. Ekki slæm þrenna það hjá Kjerúlfinum.

 

Í A flokk var það Flugar frá Kollaleiru sem hafði sigur með Hans í hnakknum. Það voru helst Gígja frá Litla-Garði og Þorbjörn Hreinn Matthíasson sem veittu þeim mótspyrnu. Þrátt fyrir eftirtektarverða skeiðspretti og flotta töltsýningu varð Þorbjörn að lúta í lægra haldi fyrir Hans og Flugari. Flugar virtist illviðráðanlegur með góðan fótaburð auk þess að vera flugrúmur og öruggur á öllum gangi. Flugar er undan Andvara frá Ey og Laufadótturinni Flugu frá Kollaleiru.

Í B flokk og tölti opnum flokki má segja að Hans Kjerúlf Flans frá Víðivöllum fremri hafi verið öruggur sigurvegari, og náði enginn keppandi að sækja að þeim Hans og Flans. Flans er nýr keppnishestur Reyðfirðingsins sem virðist geta dregið fram nýja keppnishesta úr hesthúskofa sínum árlega. Flans er eftirtektarverður Gustssonur á áttunda vetri sem eflaust á eftir að blanda sér í toppbaráttu á Fjórðungsmóti Austurlands í sumar.

Í B-flokki vöktu einnig athygli Guðröður Ágústsson og Vökull frá Síðu, en Vökull er fallegur stóðhestur undan Adam frá Meðalfelli, dökkrauður og með hvítt og gríðarmikið fax. Eins vakti Hrollur frá Grímsey undir stjórn Þorbjörns Hreins, hágengur, rúmur og kraftmikill hestur þar á ferðinni sem er að byrja keppnisferilinn.

Áhugamannaflokkur var sterkur í ár, og má segja að áhugamenn austantjalds hafi sjaldan eða aldrei verið betur hestaðir. Virkilega gaman að sjá svo stóran hóp af góðum tölturum. Eins voru unglingarnir vel ríðandi, og er sérstaklega gaman að sjá keppnisglampa og eftirvæntingu í augum þeirra þegar riðið er inn á ísinn, enda ekki á hverjum degi sem gefst kostur á að ríða í svo glæsilegri umgjörð með fjöldann allan af áhorfendum austanlands.

Heildarúrslit mótsins má finna hér á heimasíðu Freyfaxa.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ