Gull og gleði á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum
Sex Íslandsmeistaratitlar skiluðu sér austur af Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum 11-14 ára er fram fór í Laugardalshöll nú um helgina. Alls voru 377 keppendur skráðir til leiks frá 20 félögum víða af að landinu, þar af átti UÍA 14 keppendur sem fóru algjörlega á kostum sögn Lovísu Hreinsdóttur, annars tveggja þjálfara UÍA hópsins.
Steingrímur Örn Þorsteinsson 13 ára fór mikinn á sínu fyrsta Meistaramóti og sigraði hvoru tveggja í 60 m spretthlaupi og langstökki, hann var að auki í sigursveit UÍA í 4x 200 m boðhlaupi í flokki 13 ára pilta. Sveitin sú bar grósku í austfirsku frjálsíþróttalífi glögglega merki en sveitin var saman sett af hlaupurum úr fjórum aðildarfélögum UÍA; Daða Þór Jóhannssyni Leikni, Atla Fannari Péturssyni Þrótti, Steingrími Erni Hetti og Henrý Elís Gunnlaugssyni Val. UÍA varð að auki stigahæsta félagið í flokki 13 ára pilta og hömpuðu piltarnir okkar stigabikar af því tilefni í lok móts.
Henrý Elís Gunnlaugsson sem einnig var að keppa á sínu fyrsta Meistaramóti gerði sér lítið fyrir og sigraði með yfirburðum í 800 m hlaupi 13 ára pilta.
Halla Helgadóttir skilaði sér langfyrst í mark í 800 m hlaupi 12 ára stúlkna, sigraði auk þess með yfirburðum í hástökki og varð þriðja í langstökki í sama flokki.
Daði Þór Jóhannsson og Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir hlutu bæði brons í langstökki í flokkum 13 ára pilta og stúlkna.
Aðrir keppendur UÍA stóðu sig einnig með miklum sóma, mikið var um bætingar og margir komust í úrslit í sínum greinum.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér og hér má finna fleiri myndir af mótinu.
Við óskum okkar fólki innilega til hamingju með árangurinn.