Syndum 100 km fyrir Huginn
Huginn fagnar eins og flestir vita 100 ára afmæli í sumar. Af því tilefni stendur félagið fyrir einum íþróttaviðburði í mánuði fram að afmælinu mikla. Febrúarviðburðurinn fer fram á morgunn og verður í votari kantinum.
Miðvikudaginn 20. febrúar, opnar Sundhöllin á Seyðisfirði aftur eftir hina árlegu vetrarlokun. Í samstarfi við forstöðumann Sundhallarinnar,hefur undirbúningsnefnd afmælisins ákveðið að febrúar muni skarta glæsilegum sundviðburði.
Viðburðurinn gengur út á það að Huginsmenn og -konur, öll saman, ætla að synda 100 km fyrir íþróttafélagið sitt. Uppi á vegg í Sundhöllinni mun hanga listi þar sem fólk skráir komu sína og þá vegalengd sem það syndir þann daginn – nýr listi verður fyrir hvern dag. Forstöðumaður Sundhallarinnar mun fylgjast með vegalengdinni í lok hvers dags og svo munu upplýsingar um vegalengdina birtast á hverjum degi á feisbókarsíðu Sundhallarinnar, og með jöfnu millibili á feisbókarsíðu Hugins og heimasíðu Seyðisfjarðarkaupstaðar.
Viðburðurinn hefst á morgun klukkan 17 og nú verður spennandi að sjá hve langan tíma við þurfum til að ná þessum 100 km.
Auðvitað verður öflugasta sundfólkið (þeir sem synda mest) heiðrað sérstaklega með tignarlegum nafnbótum og verður það gert á sjálfri afmælishelginni, 28.- 30.júní. Ákveðið hefur verið að skipta keppninni upp í 4 aldursflokka : 10 og ára og yngri (mega synda með froskalappir), 11-16 ára, 17-66 ára og 67 ára og eldri. Allir sem taka þátt fá viðurkenningarskjal.
Sjáumst í sundi og munið viðburðurinn hefst formlega klukkan 17 á morgun!!