Undirbúningur fyrir Öxi 2013 hafinn
Undirbúningur fyrir þríþrautarkeppnina Öxi 2013 er hafin. Fulltrúar UÍA og Djúpavogshrepps funduðu á Djúpavogi í síðustu viku en sambandið tekur virkan þátt í keppninni að þessu sinni. Keppnin í ár verður haldin laugardaginn 30. júní.
„Forsvarsmenn keppninnar leituðu til okkar eftir ákveðinni sérþekkingu og liðsstyrk og það gleður okkur að geta veitt hana," segir Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra, sem sat fundinn fyrir hönd UÍA ásamt formanninum Gunnari Gunnarssyni. „Okkur þykir þetta spennandi verkefni og heiður að taka þátt í því."
Að auki sátu fundinn af hálfu heimamanna Kristján Sveinn Ingimarsson, Gautu Jóhannesson, Hafliði Sævarsson, Ólafur Áki Ragnarsson og Ugnius Hervar Didziokas. Þótt þríþrautin sé aðalmálið er fjölbreytt dagskrá í gangi í sveitarfélaginu alla helgina með áherslu á hlaup og göngur.
Keppnin hefst á 750 metra sjósundi þar sem synt er af Staðareyri suður yfir Berufjörð. Þá taka við 13 km hjólreiðar inn Berufjarðardalinn og upp á Öxi. Þar er farið af hjólinu og hlaupið 19 km yfir í Fossárdal og að Eyjólfsstöðum. Þá er aftur stigið að bak hólinu og hjólað út á Djúpavog 18 km.