Ný stjórn Vals
Ný aðalstjórn Vals var kjörin á aðalfundi félagsins í grunnskólanum á Reyðarfirði í gærkvöldi. Aðalheiður Vilbergsdóttir er nýr formaður.
Með henni koma Guðrún Pétursdóttir, ritari og Bjarni Magnús Jóhannesson, gjaldkeri inn í aðalstjórnina en þau hafa ekki áður setið þar. Að auki eiga formenn ráða Vals sæti í stjórninni en þeir eru Ásmundur Ásmundsson frá glímuráði, Jóhann Eðvald Benediktsson, knattspyrnuráði og Guðrún Linda Hilmarsdóttir, skíðaráði.
Á fundinum voru fluttar skýrslur ráðanna þriggja. Knattspyrnan er stærsta greinin en þar er Valur virkur þátttakandi í samstarfi undir merkjum Fjarðabyggðar. Skíðadeildin æfir í Oddsskarði og keppir undir merkjum Skíðafélags Fjarðabyggðar. Fram kom á fundinum að þar væri nokkur gróska í brettadeild.
Innan Vals á Reyðarfirði er eina skipulagða glímustarfið á Austurlandi en keppendur Vals keppa undir merkjum UÍA á landsvísu. Keppendur félagsins náðu góðum árangri í Íslandsglímunni sem haldin var á Ísafirði í fyrra utan verðlauna á öðrum mótum.
Ný stjórn Vals, frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir, Aðalheiður Vilbergsdóttir, Bjarni Magnús Jóhannesson, Elías Geir Eymundsson, Jóhann Eðvald Benediktsson, Guðrún Linda Hilmarsdóttir og Ásmundur Ásmundsson.