Frjálsar og fjör á Ávaxtamóti UÍA og Loðnuvinnslunnar hf.
Ávaxtamót UÍA og Loðnuvinnslunnar hf. í frjálsum íþróttum fór fram á Fáskrúðsfirði síðastliðinn laugardag.
40 keppendur frá 7 félögum spreyttu sig í boltakasti, spretthlaupi og langstökki án atrennu.
Mótið var helgað yngstu kynslóðinni en keppendur voru á aldrinum 4-10 ára. Þar fara jafnan saman frjálsar íþróttir og fjör, og árangur ekki síður mældur í brosum en sekúndum og sentimetrum.
Glaðhlakkalegir ávextir kíktu í heimsókn og stjórnuðu æsispennandi þrautaboðhlaupi en þakið ætlaði bókstafalega að rifna af húsins, slík var stemmingin þegar ananasinn fyrirliði stelpnaliðsins tók endasprett gegn vöskum fulltrúa strákaliðsins. Undir lok móts veittu ávextirnir þátttakendum viðurkenningu fyrir árangurinn, en allir keppendur fengu brosmildan banana og UÍA buff að launum fyrir góða frammistöðu og skemmtilega keppni.