Sex milljónir rötuðu austur úr ferðasjóði ÍSÍ
Nýverið kom út samantekt sem ÍSÍ gerði fyrir Menntamálaráðuneytið og inniheldur yfirlit yfir úthlutanir úr Ferðasjóði ÍSÍ ferðaárið 2011. Niðurstöður eru um margt markverðar.
UÍA og aðildarfélög fengu tæpum sex milljónum úthlutað úr ferðasjóðnum árið 2011. Íþróttafélögin Höttur á Egilsstöðum og Þróttur í Neskaupstað eru meðal þeirra einstöku félaga sem mest fengu.
Tvö héraðssambönd fengu meira en UÍA. Á sambandssvæði Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) fóru 11,4 milljónir og til Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) 6,8 milljónir. Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) var fjórða listanum með tæpar 5,5 milljónir. Á sambandssvæði UÍA starfa um 40 félög, 70 innan ÍBR, 22 á svæði ÍBA og tólf í Vestmannaeyjum.
Sé úthlutunin brotin niður eftir einstökum íþróttafélögum kemur mest í hlut ÍBV, 5,4 milljónir en Akureyrarliðin Þór og KA fá tæpar fimm milljónir hvort. Þróttur Neskaupstað er í fjórða sæti með rúmar 2,8 milljónir en ferðakostnaður Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar færist á félagið. Höttur er hið fimmta á listanum með 35 þúsundum krónum minna en Þróttur.
Af einstökum íþróttagreinum er langmestu úthlutað til knattspyrnu, rúmum 25 milljónum króna. Handknattleikurinn er næstur með tæpar ellefu milljónir og körfuknattleikur þriðji með 6,7 milljónir.
„Ferðasjóðurinn gerir ekki upp á milli aðseturs íþróttafélaga. Hins vegar er tryggt að þau félög sem ferðast mest og lengst fá hærra endurgreiðsluhlutfall en önnur félög. Byggir kostnaðurinn á fjölda ferða, fjölda einstaklinga og fjarlægð að keppnisstað,“ segir í samantektinni.
„Ferðasjóður íþróttafélaga hefur reynst íþróttafélögum ómetanleg stoð og fullyrða má að þátttaka í mótum væri ekki jafn almenn ef hans nyti ekki við. Með styrkjum úr sjóðnum hefur aðgengi alls íþróttafólks að keppni og íþróttamótum verið jafnað umtalsvert.“
Alþingi veitir fé í sjóðinn af fjárlögum. Fyrst var úthlutað úr sjóðnum árið 2007, þrjátíu milljónum króna. Gert var ráð fyrir að upphæðin ykist í sextíu milljónir árið 2008 og níutíu milljónir árið 2009. Vegna niðurskurðar í ríkisfjármálum hefur aldrei verið úthlutað meira en sextíu milljónum og á síðasta ári var aðeins rúmri 51 milljón úthlutað. Alls var sótt um rúmar 400 milljónir króna vegna ríflega 3500 ferða í 23 íþróttagreinum.
Í samantektinni er minnt á áfram þurfi að hafa vakandi auga fyrir ferðakostnaði landsbyggðarliðanna. Ferðakostnaðurinn er sagður „sligandi þáttur í rekstri íþróttafélaga“ og sjóðurinn dekki aðeins hluta hans. „Ótalin er gisting og uppihald sem ekki verður hjá komist fyrir iðkendur á landsbyggðinni sem sækja mót út fyrir sinn landsfjórðung.“ Auk þess sem aðeins brot þeirra móta, sem boðið er upp á, eru styrktæk í sjóðinn.
Þá hefur fólksfækkun í dreifbýli leitt til samstarfs félaga um keppni í hópíþróttum. „Dæmi eru um að iðkendur á Þórshöfn sæki æfingar til Egilsstaða og öfugt og er þá um ríflega 200 km leið að fara, aðra leið.“